151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

fsp. 5.

[14:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Pólitísk afskipti af einstaka málum eru ákveðin tegund spillingar sem leiðir til framgangs sérhagsmuna umfram almannahagsmuna, sérhagsmuna þar sem er verið að styðja við bestu vini aðal á meðan aðrir sitja úti í kuldanum. Til að koma í veg fyrir pólitísk afskipti setjum við almenn lög, reglur og búum til faglega verkferla þannig að stjórnsýsla lýðræðisins okkar geti tekið hlutlægar ákvarðanir en ekki hlutdrægar í mikilvægum málum þar sem fagmennska skiptir alla máli en ekki bara notalegir stólar fyrir vini og ættingja eða pólitíska bandamenn. Við viljum nefnilega faglega stjórnsýslu en ekki pólitíska. Í því samhengi vil ég vitna í orð fjármálaráðherra frá 2011 og spyrja hvort ráðherra sé enn á þeirri skoðun sem kemur fram í þeim orðum og ef ekki, af hverju? Með leyfi forseta:

„Staðreynd málsins er hins vegar sú að það blasir við allri þjóðinni að forsætisráðherra hlýtur að vera að íhuga afsögn vegna þessa máls og fyrstu viðbrögð hennar við niðurstöðu kærunefndarinnar ganga algerlega í berhögg við einn megintilgang þess frumvarps sem varð að jafnréttislögum fyrir fáum árum, t.d. um að úrskurðir kærunefndarinnar væru bindandi.“

Hætti fjármálaráðherra kannski að vera á þessari skoðun þegar hann braut sjálfur jafnréttislög með skipun í embætti skrifstofustjóra? Var krafan um afsögn þáverandi forsætisráðherra bara pólitískt leikrit miðað við viðbrögð hans við eigin broti?