153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

aðbúnaður fíkniefnaneytenda.

[15:41]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu máli sem ég lít mjög alvarlegum augum. Það er vissulega mjög gott og mikil mildi að enginn slasaðist en það minnkar ekki þá skyldu sem ríki og sveitarfélög hafa gagnvart þessum hópum. Ég vil byrja á því að benda á að þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu þar sem kallað er eftir því að skapa umgjörð um þennan viðkvæma samfélagshóp og taka áfangaheimilin til frekari skilgreiningar, fjalla þar um eftirlit og fleiri atriði. Á sama tíma höfum við í ráðuneytinu hjá mér verið í samtali við Gæða- og eftirlitsstofnunina, sem heyrir jú undir ráðuneytið hjá okkur, til að kortleggja hvaða starfsemi á sviði velferðarþjónustu er veitt í dag án eftirlits og leggja fram tillögur til úrbóta.

Svar mitt við fyrirspurn hv. þingmanns er: Já, við erum með augun á boltanum en við erum ekki komin með lausnirnar. Við erum að skoða þetta og höfum fundað með stofnuninni um þetta mál. Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að hér þarf að gera gangskör að því að bæta úr þessu þannig að það sé alveg ljóst að þegar um velferðarþjónustu eins og þessa er að ræða þá sé hún bæði eftirlitsskyld og að það sé skylda að aðilar séu þá með tilskilin leyfi til þess að reka þessa starfsemi.