131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Bókhald.

478. mál
[12:40]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um bókhald. Þau eru nr. 145/1994. Frumvarp þetta er lagt fram samhliða lagafrumvarpi til breytinga á lögum um ársreikninga sem ég gerði grein fyrir fyrr á fundinum.

Lög um bókhald hafa að geyma ákvæði um bókhaldsskyldu, bókfærslu og bókhaldsskjöl og geymslu þessara gagna, auk almennra ákvæða um ársreikninga annarra félaga en þeirra sem falla undir lög um ársreikninga, þ.e. hlutafélög, einkahlutafélög og samvinnufélög, auk tiltekinna sameignarfélaga og samlaga. Félög, sjóðir og stofnanir, flest sameignarfélög og samlög, svo og bókhaldsskyldir einstaklingar, falla ekki undir ákvæði laga um ársreikninga eða ákvæði annarra laga um reikningsskil. Þessir aðilar skulu semja ársreikninga sína í samræmi við ákvæði III. kafla laga um bókhald en þeim er þó heimilt að fara eftir ákvæðum laga um ársreikninga sem eru öllu ítarlegri og kröfuharðari um framsetningu og mat eigna og skulda og fleiri atriða en III. kafli í lögum um bókhald.

Breytingar þær sem hér eru lagðar til eru í samræmi við breytingar í frumvarpi til laga um breytingar á lögum um ársreikninga og jafnframt eru lagðar til nokkrar orðalagsbreytingar. Þá er lagt til að aðilar sem semja ársreikninga sína samkvæmt III. kafla laganna um bókhald hafi almenna heimild til að beita einstökum settum alþjóðlegum reikningsskilastöðlum eða reikningsskilastöðlum reikningsskilaráðs við samningu sinna reikningsskila í stað reglna samkvæmt lögunum.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.