145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

framkvæmd þingsályktunar um að draga úr plastpokanotkun.

388. mál
[16:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst ekki ásættanlegt hversu hægt þetta gengur. Það eru mörg lönd, bæði í Evrópu og víðar, sem eru búin að banna plastpokanotkun sem fyrsta skref í þessu máli. Ég var stödd á Indlandi haustið 2012 og í þeim fylkjum þar sem ég fór var þá þegar búið að banna plastpokanotkun í því stóra landi. Auðvitað er horft til stóru landanna þegar verið er að meta afleiðingarnar af þessu öllu en við eigum ekki að vera einhverjir hallærislegir eftirbátar. Við eigum auðvitað að gera það sem við getum í þessu máli og þetta er mjög einfalt. Þetta eru mjög einföld mál. Það er hægt að stemma stigu við plastpokanotkun og horfa til reynslu annarra landa hvað það varðar. Í Evrópu eru það Írland, Þýskaland, Holland, Belgía, Sviss og Ítalía til dæmis sem hafa stigið fram í þessum efnum.

Skýrslan sem ég vitnaði í áðan og var í fréttum nýlega á RÚV er skýrsla Alþjóðaefnahagsráðsins um plastvandann í hafinu. Hún kemur í kjölfarið á sögulegum samningi sem náðist á loftslagsráðstefnunni í París í desember og hæstv. ráðherra þekkir hver niðurstaðan af henni var. Markmiðið er að jörðin hlýni ekki um meira en tvær gráður á þessari öld og allt kapp verði lagt á að halda hlýnun undir einni og hálfri gráðu og jafnframt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við vitum að framleiðsla plasts hefur þarna ýmislegt að segja. Núna er staðan þannig að á hverri mínútu er eins og heilum sorpbíl (Forseti hringir.) af plastpokum sé sturtað í hafið. Vandinn vex. Eins og einn gárunginn sagði: Við hljótum að geta gert betur. Eigum við ekki að hafa meira af vatni en plasti í hafinu, er það ekki markmiðið?