151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

störf þingsins.

[11:14]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég kem hér síðastur í mælendaskrá um störf þingsins til að taka undir með þingmönnum Norðvesturkjördæmis og þingmönnum allra flokka sem töluðu í þessari umræðu um það óhapp sem nú varð úti á Breiðafirði. Ég vil taka undir ræður þeirra. Hvert orð var vel valið sem þar var sagt og ég geri þau orð að mínum. Ég vil hins vegar draga það saman í því að segja að við höfum sem þingmannahópur ekki fyrir löngu fundað með stjórnendum Vegagerðarinnar um málefni Baldurs og um málefni samgangna á sunnanverðum Vestfjörðum sem við viljum taka betur utan um og varpa ljósi á að þetta getur ekki gengið með þessum hætti. Ég sendi kveðjur til þess fólks sem situr nú um borð í Breiðafjarðarferjunni Baldri og vona að allt fari vel. En ég vil líka segja: Þetta þarf og verður að vera síðasta bilunin á því skipi. Það er aðeins tilviljun að ekki fer illa þegar siglt er á þessu viðkvæma hafsvæði á ferju sem aðeins hefur eina vél. Við þingmenn Norðvesturkjördæmis höfum líka á fundum með stjórn og stjórnendum Vegagerðarinnar og vakið athygli á samgöngum innan byggðarlaga Vesturbyggðar og viðhaldi á þeim. Við viljum með þessari framgöngu hér í dag í þinginu draga það fram að það verður að vera forgangsatriði ríkisstjórnar og samgönguráðherra að huga að samgöngum yfir Breiðafjörð. Samgönguleysi við sunnanverða Vestfirði verður að taka mjög alvarlega og við brýnum samgönguráðherra í dag til góðra verka.