154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

breytingar á aðalnámskrá grunnskóla.

87. mál
[19:29]
Horfa

Sigþrúður Ármann (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þær fyrirspurnir sem hann beinir hér til mín. Já, það að þriðjungur ungra drengja geti ekki lesið sér til gagns, það er alvarlegt mál og við því verðum við að bregðast. Það að geta lesið sér til gagns er undirstaða þess að geta átt hér sómasamlegt líf. Þetta er grunnurinn sem við byggjum á, að við séum með tungumálið okkar og lesturinn og okkar móðurmál. Við verðum að geta lesið á okkar móðurmáli til að geta byggt til að mynda önnur tungumál og bara okkar færni.

Þú spyrð mig. Ég mun tala fyrir þessu máli í mínu kjördæmi í Garðabæ og ég vona svo sannarlega að bæjarstjórnin þar taki vel í þessa tillögu um að við gerum slíkt hið sama og gert var í Grunnskóla Vestmannaeyja með góðum árangri. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu. Þvert á móti held ég að við ættum endilega að prófa það. Ég held líka að það skipti máli að við séum einmitt að taka fleiri skóla í svona verkefni eins og í Vestmannaeyjum, að við séum að taka fleiri skóla í rannsóknarverkefni, prófa þessar aðferðir og sjá hvort þetta er að virka. Það má byrja þannig, kannski áður en þetta er tekið alfarið inn í aðalnámskrá. Við fáum þá fleiri dæmi, fáum reynsluna. Ef þetta er að virka þá eigum við svo sannarlega að taka þetta inn í aðalnámskrá. Og já, þá mun ég tala fyrir því í mínum flokki og berjast fyrir því að svo verði.