135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[13:58]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög þörf umræða og fer fram undir þeirri tilhugsun að við þurfum kannski að horfa fram á það síðar í dag að fyrir liggi ákvörðun um að skera loðnuveiðarnar algjörlega niður vegna þess að stofninn sé það lítill. Ég vil þess vegna beina því til hæstv. sjávarútvegsráðherra, og ítreka þá skoðun mína, hvort ekki sé orðið tímabært að endurskoða þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fara jafnharkalega í niðurskurð á þorskveiðum og ákveðið var, niður í 130 þúsund tonn. Ég held að það sé orðin tímabær ákvörðun.

Hv. þingmenn fengu allir í gær græna bók í hólfið sitt frá Fiskistofu. Hvað stóð í henni? Það stóð í henni að skyndilokanir vegna þorsks hefðu verið 102 á síðasta ári og árið 2006 hefðu skyndilokanir aldrei verið fleiri í sögu skyndilokunarkerfisins og er þó miðað við hálfan mánuð í skyndilokun núna en ekki viku eins og áður var. Hvað segir þetta okkur? Það segir mér alla vega að í sjónum er hellingur af smáum fiski að vaxa upp, ekki þeir lélegu árgangar sem Hafrannsóknastofnun hefur gengið út frá. Menn beita væntanlega ekki skyndilokun á þorsk sem ekki er til eða hvað? (Gripið fram í.) Það skyldi þó ekki vera að menn ímyndi sér það hér í stjórnarflokkunum að verið sé að beita skyndilokun á fisk sem ekki er til? Ég held að þetta sýni okkur að upp er að vaxa talsvert af þorski. Mönnum ber skylda til þess, og sérstaklega hæstv. sjávarútvegsráðherra, við núverandi kringumstæður að endurskoða fyrri ákvarðanir sínar og taka mið af því sem menn vita best. Mönnum ber skylda til að reyna að lagfæra stöðuna í þjóðfélaginu miðað við það sem við kannski stöndum frammi fyrir.