145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

sala Landsbankans á hlut sínum í Borgun.

[15:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessum orðum hæstv. forsætisráðherra. Það er mikilvægt að fá opinberlega fram stuðning hans við að við höldum áfram rannsóknum að þessu leyti.

Forsvarsmenn bankans munu mæta fyrir fjárlaganefnd í vikunni. Búast má við að efnahags- og viðskiptanefnd vilji aftur ræða við forsvarsmenn um þetta mál. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur líka sérstakar skyldur og heimildir í þessu efni.

Ég held að það skipti okkur afskaplega miklu máli, vegna þess að við erum nú með til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd frumvarp hæstv. fjármálaráðherra, sem gerir ráð fyrir að eignasafn Seðlabankans taki yfir um 60 milljarða af eignum frá kröfuhöfum og komi þeim í verð, að við búum til umgjörð sem enginn vafi er á að tryggi jafnræði, gagnsæi og samkeppni um þær eigur sem ríkið er að láta frá sér.