151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

gerð skoðanakönnunar um afstöðu til dánaraðstoðar meðal heilbrigðisstarfsfólks.

529. mál
[17:19]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég get ekki á mér setið og kem hér upp örstutt til að segja nokkur orð. Ásetningur minn er ekki að lengja þennan fund úr hömlu heldur aðeins um örfáar mínútur, aðallega til að þakka hv. flutningsmanni Bryndísi Haraldsdóttur, fyrir einurð hennar að kveikja umræðu um þessi viðkvæmu málefni, eins og hún orðaði það, og með þeim hætti sem hún gerir það, með hófstilltum og málefnalegum hætti og með vandaðri umgjörð. Hv. þingmaður hefur ekki lagt áherslu á sínar persónulegu skoðanir um þetta annað en það að hún hefur lýst yfir því að hún sé hlynnt dánaraðstoð með góðum og gildum rökum. Það geri ég sömuleiðis, enda nýt ég þess heiðurs að vera flutningsmaður með hv. þingmanni og fleirum.

Hér tillaga um að gerð verði skoðanakönnun um afstöðu til dánaraðstoðar meðal heilbrigðisstarfsfólks. Mín tilfinning er sú að þó að þetta sé jafn viðkvæmt mál meðal þessa starfshóps og margra annarra þá sé töluverð eftirspurn eftir þessu í þeim hópi því að það er auðvitað sá hópur sem glímir við krefjandi aðstæður við lífslok, við veikindi, við meiri háttar áföll sem erfitt er að lýsa og glímir við úrvinnslu erfiðrar lífsreynslu þessu tengt. Þess vegna er þetta mikilvægt.

Hv. þingmaður kom inn á fyrri kannanir sem gerðar hafa verið og hvernig þróun afstöðunnar meðal heilbrigðisstarfsfólks og fagfólks hefur verið almennt og að þetta hafi verið opnast. Það er staðreynd að heilbrigðisstarfsfólk hefur staðið frammi fyrir þessu vali, þeirri ákvörðun að taka af skarið um meðferð eða ekki meðferð eða passífa lífslokameðferð. Þetta ágæta fagfólk okkar hefur staðið frammi fyrir þessu alla tíð. Þarna hafa verið í gildi óskráð lög og siðferðileg viðmið sem menn hafa kannski átt erfitt með að ræða og viðra almennt í samfélagsumræðunni. En við erum auðvitað að fjalla hér um margvísleg viðmið. Við erum að fást við sjálfar rætur lífsins, þ.e. hin siðferðilegu viðmið, lífsskoðun fólks, trúarleg atriði, og svo koma lögfræðilegu og heimspekilegu atriðin líka. Fagfólk í heilbrigðisþjónustu er auðvitað undir áhrifum alls þessa eins og allir aðrir.

Herra forseti. Lífslokin, og ég tala nú ekki um dánaraðstoð, eru okkur ekki almennt tamt á tungu. Mannfólkið er einhvern veginn þannig forritað að því lætur betur að bægja frá sér þessum óhjákvæmilega viðburði hjá okkur öllum í lengstu lög. En svo gripið sé til fleygra orða er það svo að eigi má sköpum renna, eitt sinn skal hver deyja. Á lífsgöngunni kynnumst við flest, ef ekki öll, með einum eða öðrum hætti þessari stund, þessum einstöku skilum, dauðastundinni, þessum ótrúlega og örfína þræði sem skilur að lífið og dauðann, þegar þessi þráður slitnar. Það er í rauninni sama hvernig dauðann ber að, sömu djúpu tilfinningarnar gera vart við sig því að við erum að fást við ræturnar, eitthvað sem er svo ótrúlega nálægt okkur, upphaf og endi, kvikuna sjálfa. Það er ekki að undra að skiptar skoðanir kunni að vera um þetta efni og við getum öll sem eitt dregið upp margvíslegar sviðsmyndir, eins og oft er talað um í daglegu daglegri umræðu. Sviðsmyndir eða dæmi um aðstæður sem eru flóknar og krefjandi við lífslok eða veikindi, áföll og slys; von, vonleysi, óbærilegur sársauki, þögn, sorg og reiði, ásakanir, lausnir og öngstræti, bæði andleg og líkamleg.

Herra forseti. Við búum yfir mikilli þekkingu. Við eigum frábært fagfólk, heilbrigðisstarfsfólk, lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og annað fjölbreytilegt fólk sem annast okkur þegar við lendum í erfiðleikum. Það er þannig núorðið að t.d. verkjameðferð er þannig þróuð að enginn ætti að þurfa að búa við mikla, sára verki. Ef við erum við að fjalla um þetta frá þeirri hlið er hægt að auka gæðin í þeirri þjónustu og hafa fleiri valkosti hvað það varðar. Þeir sem vilja fara varlega gjalda varhug við því að verið sé að bjóða eitthvað sem er ótímabært, þ.e. að binda enda á lífið. Að þar með séum við að rjúfa, að við séum að brjóta öll okkar viðmið um manngildið og lífsvirðinguna. Við þurfum að velta því vandlega fyrir okkur sem einstaklingar og sem þjóð hvernig samfélag við viljum skapa alveg frá upphafi, hvernig menningu við viljum skapa varðandi börnin okkar, skólanám og menntir, atvinnu og líka hvernig lífslokamenningu við viljum skapa, dánarmenningu, og hvaða áhrif breyting hefur á þeim viðhorfum til dauðans og hvernig við ljúkum lífinu, hvort við eigum sjálf sem einstaklingar að fá að hafa eitthvað um það að segja hvenær og hvernig við fáum að deyja ef við svo viljum. Þetta eru ágengar spurningar sem ekki fæst svar við og þær eru persónulegar. Þetta kallast á við það að stjórnvöld gera allt sem í þeirra valdi stendur með opinberum aðgerðum til að gera einstaklingum það kleift að fá að lifa, að færri velji þann kost að taka sitt eigið líf. Það er áhyggjuefni hversu margir velja það og sérstaklega ungt fólk.

Herra forseti. Það þarf að svara mörgum spurningum. Bjóðum við dánaraðstoð sem einhverja lausn? Og ef við gerum það, erum við þá ekki að segja í verki eitthvað um virðinguna fyrir lífinu? Manngildið? Lýkur því einhvern tíma í á lífsferlinum? Að gildi lífs hjá mannveru á einhverju stigi verði ekki lengur fyrir hendi. Eiga bara deyjandi eða dauðvona einstaklingar geta fengið aðstoð við að deyja? Og hvar setjum við mörkin um það hver er deyjandi? Þetta er áleitin spurning. Er líkamlegur sjúkdómur alvarlegri en andlegur sjúkdómur? Á að taka tillit til þess? Og hver þjáist nægilega mikið til að geta fengið dánaraðstoð? Hve miklar þjáningar eru nægar til að geta fallið undir það t.d. að vera óbærilegar þjáningar? Þetta eru áleitnar spurningar sem við þurfum að taka upplýsta umræðu um.