Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

Störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Umræða um verðbólgu hér á landi hefur verið áberandi síðustu vikur. Verðbólga hefur risið skjótt upp, stýrivextir hækka og bankarnir hækka vexti sína í kjölfarið. Flestallir landsmenn hafa fundið fyrir áhrifunum og ekki síst okkar viðkvæmustu hópar, ásamt ungu fólki sem margt hvert er að stíga sín fyrstu skref inn á húsnæðismarkað með börn eða börn á leiðinni. Það er aldrei skemmtilegt að horfa upp á vaxandi verðbólgu, sérstaklega í ljósi þess hversu vel okkur hefur gengið í efnahagsmálum undanfarin ár þrátt fyrir oft á tíðum erfiðar aðstæður. Margar ástæður eru fyrir stöðunni í dag. Sumar hverjar ráðum við ekkert við. Hins vegar þýðir það ekki að við megum staldra við og vona það besta; allt samfélagið, ríkið og einkaaðilar þarf að standa saman í því verkefni að vinna bug á verðbólgunni.

Ríkisstjórnin ætlar sér alls ekki að draga lappirnar og er vel meðvituð um að grípa þarf okkar viðkvæmustu hópa og koma í veg fyrir hremmingar. Nú þegar hefur verið farið í aðgerðir eins og að hækka húsnæðisbætur, hækka bætur almannatrygginga, hækka barnabætur og fara í ýmsar aðgerðir til að bregðast við stöðunni á húsnæðismarkaði. Þetta er ekki tæmandi talning en allar þessar aðgerðir geta skipt sköpum fyrir einstaklinga sem sjá peninga sína hverfa í hærri vöxtum og hækkandi verði á heimilisvörum, matvælum og öðrum nauðsynjum. Það eru þó ekki einungis stjórnvöld sem þurfa að grípa til aðgerða heldur þurfum við öll að taka höndum saman, við í samfélaginu, bankarnir og þeir einkaaðilar sem hafa burði og veita fyrrnefndar nauðsynjar á við matvæli, að sýna samfélagslega ábyrgð. Á tímum hárrar verðbólgu eykst mikilvægi þess að tannhjólið gangi smurt og ef við vinnum öll saman þá getum við náð stórkostlegum árangri.