154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

Störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Brynhildur Björnsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku var maður sýknaður af ákæru um nauðgun. Konan sem kærði manninn fékk lífshættulegar innri blæðingar í samskiptum þeirra vegna áverka sem maðurinn veitti henni þegar þau voru að stunda eitthvað sem í dómnum er ekki kallað nauðgun og ofbeldi heldur harkalegt kynlíf. Mig langar að við stöldrum aðeins við þetta hugtak, harkalegt kynlíf, sem um allan heim verður æ algengari málsvörn í grófum kynferðisbrotamálum þar sem áverkar eru hluti af ofbeldinu. Hér skal tekið skýrt fram að enginn getur metið eða dæmt hvernig fólk hagar sínu kynlífi, auðvitað ekki, en ef hugtakið harkalegt kynlíf á að vega þyngra fyrir dómstólum en ákæra, áverkar og lífshætta, þá er kominn tími til að löggjafinn spyrji sig nokkurra spurninga: Hvað nákvæmlega felst í skilgreiningunni harkalegt kynlíf? Hvar, samkvæmt löggjafanum, liggja skilin milli harkalegs kynlífs og nauðgunar eða annars ofbeldis? Til eru dæmi um að ökumaður sem ekur of hratt undir áhrifum beri samkvæmt lögum ábyrgð á lífi og limum farþega sinna, en hver er ábyrgð þess sem veitir öðrum hættulega áverka undir kynferðislegum formerkjum, jafnvel þótt ekki sé sannað að um nauðgun sé að ræða? Eru einhver takmörk fyrir þeim áverkum sem refsilaust má valda ef samskiptin eru kölluð harkalegt kynlíf?

Ég hyggst leggja fram skriflega fyrirspurn til dómsmálaráðherra um þetta mál vegna þess að ef til stendur að nota þetta hugtak sem málsvörn í kynferðisbrotamálum þá er lágmark að lögformleg skilgreining á harkalegu kynlífi sé skýr af hendi löggjafans. Á meðan slík skilgreining liggur ekki fyrir eru þolendur kynferðisofbeldis óvarðir í kerfinu, háðir einstaklingsbundnum hugmyndum þeirra sem með mál þeirra fara um hvað sé ofbeldi og hvað ekki, hvað sé gróf nauðgun og hvað bara harkalegt kynlíf. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)