148. löggjafarþing — 67. fundur,  4. júní 2018.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:19]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Það er ekki að furða að vel hafi gengið að mynda sitjandi ríkisstjórn eftir síðustu alþingiskosningar. Um fátt var að semja, litlar málamiðlanir, klassísk sérhagsmunagæsla og skipti á meðferð landsins gæða, nokkuð sem þessar þrjár valdastofnanir samfélagsins kunna öðrum fremur.

Hvernig hefur svo samstarfið farið af stað? Sjálfstæðisflokkurinn fékk að ráða gjöf þjóðarinnar til útgerðarinnar, 3 milljarða kr. lækkun á veiðigjöldum, í máli sem var laumað inn á þingið á síðustu metrunum, líklega til að forða Vinstri grænum frá enn verri útreið en flokkurinn þó fékk í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. Hún hefði orðið verri ef málið hefði fengið hér eðlilega málsmeðferð.

Vinstri græn eru þó ekki með tóman pokann. Í þeirra hlut kom ríkisvæðing heilbrigðiskerfisins. Þar virðist sósíalísk fortíðarþrá ráða ferð jafnvel þótt sú vegferð endi í því að Íslendingar upplifi í fyrsta skipti drög að tvöföldu heilbrigðiskerfi. Það samkomulag að allir Íslendingar skuli njóta jafns aðgangs að heilbrigðisþjónustu er í uppnámi ef svo fer sem horfir.

Innan ráðuneytis heilbrigðismála er nú unnið hörðum höndum að því að færa eins mikið og mögulegt er af starfsemi sjálfstætt starfandi aðila til opinberra stofnana. Þá er búið að loka fyrir nýliðun í samningi Sjúkratrygginga við sérfræðinga, samningi sem var fyrst og fremst ætlaður til að tryggja jafnt aðgengi allra að sömu þjónustu fyrir sama verð. Þar með er nýjum sérfræðingum haldið úti þrátt fyrir langvarandi skort á viðkomandi sérfræðiþjónustu hér á landi. Sérfræðingasamningurinn rennur út um næstu áramót en þegar eru blikur á lofti og hætta á að einhverjir sérfræðingar segi sig frá honum strax í sumar. Þar með yrði hið tvöfalda kerfi orðið að veruleika.

Þetta eru engar smávægilegar breytingar á heilbrigðiskerfinu okkar, breytingar sem sannarlega eru ekki unnar í sátt og samvinnu við þá fjölmörgu sjálfstætt starfandi aðila sem um árabil hafa byggt upp og haldið gangandi okkar góðu heilbrigðisþjónustu. Þeir aðilar eru ekki boðnir velkomnir að borðinu.

Það er heldur ekki svo gott að stjórnvöld geti svarað því hvernig fjármagnið í hinum ríkisrekna hluta heilbrigðisþjónustunnar, sem er þegar mikill meiri hluti, er nýtt. Þar er komið að tómum kofanum hjá heilbrigðisyfirvöldum sem láta það smáatriði þó ekki stöðva sig á þessari vegferð. Ef það er einhver sem heldur að vinnubrögð sem þessi valdi ekki skaða, dragi ekki úr innstreymi þekkingar til landsins — og það á tímum þegar áskoranir í heilbrigðisþjónustu lúta ekki síst að nýsköpun og hagkvæmri nýtingu þekkingar — bið ég hinn sama að hugsa sig betur um. Þeir sem tapa á þessum vinnubrögðum stjórnvalda eru fyrst og fremst sjúklingar.

Herra forseti. Framsókn átti að gegna hlutverki miðjulímsins en það þarf svo sem ekkert lím þegar ekki gengur hnífurinn á milli flokka sem þrátt fyrir allt eru samstiga í sérhagsmunagæslunni og fortíðarþránni, jafnvel þegar sú fortíðarþrá viðkemur ríkisvæðingu heilbrigðiskerfisins, svo merkilegt sem það nú er. Auðvitað fær Framsókn samt eitthvað fyrir sinn snúð. Þegar fólk fór að sjá í gegnum innihaldslitlar upphrópanir um stórsókn í samgöngubótum og samgönguráðherra komst í vandræði var honum hleypt í varasjóð ríkisstjórnarinnar, sjóð sem samkvæmt lögum um opinber fjármál er ætlaður fyrir ófyrirséð, óhjákvæmileg útgjöld, útgjöld sem sögulega falla fyrst og fremst til í tengslum við heilbrigðis- og velferðarmál. Helmingurinn af þessum varasjóð, 4 milljarðar til að vera nákvæm, var sem sagt nýttur snemma árs í samgönguúrbætur, úrbætur sem var löngu fyrirséð að þyrfti að fara í, og ríkisstjórnin lofaði reyndar að myndi endurspeglast í ríkisfjármálaáætlun.

Kraftmikill og metnaðargjarn menntamálaráðherra spólar hins vegar enn á upphafsmetrunum. Kannski hún fái hinn helminginn af varasjóðnum eða er hann notaður til að mæta gjöfinni til útgerðarinnar?

Herra forseti. Ég get ekki lokið máli mínu án þess að nefna nokkuð sem hefur verið mér hugleikið í vetur og það er Helguvíkurslysið svokallaða. Fyrir stuttu skilaði Ríkisendurskoðun stjórnsýsluúttekt, sem ég hafði frumkvæði að því að Alþingi kallaði eftir, varðandi aðdragandann að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs Sílikons í Helguvík. Í þeirri skýrslu eru sannarlega tilgreind mörg vítin að varast og verða þau vonandi rædd hér ítarlega þegar tími vinnst til.

Sem lokaorð hér langar mig að gefnu tilefni, í ljósi hættufarar ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í heilbrigðismálum, að nefna sérstaklega einn lærdóm skýrslunnar. Það er ekki í anda heiðarlegrar vinnu í þágu almannahagsmuna að ganga út frá ákveðinni niðurstöðu fyrir fram og vinna síðan sleitulaust með öllum ráðum að því að ná henni, burt séð frá því hvað staðreyndir segja og óháð almannahagsmunum.

Ekki láta heilbrigðiskerfið okkar verða annað Helguvíkurslys. Það er engin eftirspurn eftir þannig pólitík. — Njótið samt sumarsins, góðir Íslendingar.