149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

velferðartækni.

296. mál
[20:07]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir andsvarið. Það sem mér finnst mest spennandi, alla vega sem er til í dag, eru þessir hreyfiskynjarar og vöktunarbúnaður og fleira slíkt sem ég veit að Akureyringar hafa verið að taka upp. Til dæmis hefur inni á hjúkrunarheimilum, þar sem sjúklingar eru órólegir, verið nýttur með leyfi aðstandenda myndavélabúnaður, vöktunarbúnaður, til að minnka áreiti á einstaklinginn. Ég nefni líka nýjar lausnir í byltuvörnum og hreyfiskynjurum, ekki gömlu rafmotturnar á gólfinu sem fólk var snjallt að komast fram hjá, heldur skynja geislar hvort fólk fer fram úr t.d. á nóttinni þannig að það er ekki heft, það eru ekki uppi grindur sem geta valdið byltum ef fólk er að fara yfir þær.

Það er rétt með sveitarfélögin, það getur verið að það hafi heft svolítið framgang velferðartækninnar að fjármagnið er ekki nægilegt. Það er bara þannig. En við þurfum að gera betur í þessu. Þess vegna tel ég að það væri mjög gott að ríkið kæmi þarna inn með styrki og fjármagn og stuðning til að koma þessu af stað. Þess vegna er líka mikilvægt að í þessum starfshópi sem verður, þá verði skipaðir fulltrúar sveitarfélaganna, að sjálfsögðu þar sem þetta er mjög stórt verkefni þeirra.