152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:19]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Framkvæmdarvaldið klúðraði bankasölu. Það er ljóst. Framkvæmdarvaldið á ekki að fá að ákveða hvaða aðili það er sem rannsakar það klúður. Það á að vera alveg á hreinu. Það á að vera í höndum þingsins að ákveða þetta. Við erum að fara fram á að rannsóknarnefnd Alþingis fari í þá vinnu að rannsaka þetta stóra mikilvæga mál til að auka traust á ferlinu, til að auka traust á bankakerfinu okkar og framhaldinu, framhaldi á sölu bankans sem stendur til því að það er meira til að selja. En stjórnarliðar vilja frekar hafa okkur stjórnarandstöðuna í pontu í fundarstjórn í allan dag heldur en að tryggja að það fari af stað raunveruleg óháð alvörurannsókn rannsóknarnefndar á vegum Alþingis, að við fáum að velja hverjir það eru sem rannsaka þetta mál. (Forseti hringir.) Ég spyr bara: Við hvað eru stjórnarliðar svona hræddir? Við hvað? Hvað er í gangi? (Forseti hringir.) Hvað er það sem má ekki rannsaka? Það hefði verið svo auðvelt að fallast á að fara strax í þetta. (Forseti hringir.) Af hverju þarf ríkisendurskoðandi að koma inn á milli? Hvers vegna er svona erfitt að sættast á þessa rannsókn? Hvað hafið þið að fela?