148. löggjafarþing — 67. fundur,  4. júní 2018.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:01]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Forseti, þing og þjóð. Í bréfi sem birtist í Fróða árið 1882 skrifaði sunnlenskur prestur, með leyfi forseta:

„Vjer óttumst, að framtíðin muni sýna að oss verði ekki auðið framfara, á meðan þau málefni liggja í dauðadái, og að eptirkomendurnir muni undrast.“

Presturinn fjallaði þá um skort á lýðræðislegri stjórn ríkiskirkjunnar og því hvernig rotið vald hindraði framfarir. Við höfum heyrt um birtingarmyndir þessa rotna valds í nútímanum, en minna um hvernig það hindrar framgang framtíðarinnar.

Ísland er með hvalrekahagkerfi. Okkar stórkostlegi og misskipti auður byggir á gríðarlegri heppni sem virðist sem betur fer hafa hent okkur með hæfilega reglulegum hætti áratugum saman. Við erum líka sem betur fer dugleg að nýta okkur tækifærin sem gefast, hvort sem það er þegar Marshall-aðstoð berst, þegar síld eða makríll þvælist inn í lögsöguna eða túristar álpast hingað til að góna gapandi á mikilfengleika íslenskrar náttúru. En við getum ekki treyst á áframhaldandi hvalreka um ókomna tíð. Framtíðin kallar. Birtingarmyndirnar umkringja okkur og heimta athygli. En geta okkar til að bregðast við áskorunum framtíðarinnar ræðst bæði af getu okkar til að skilja þær og vilja okkar til að leggja úreltan skilning til hliðar.

Öllum ætti að vera ljóst að meðan þingstörf leggjast á hliðina út af borubröttum tilraunum til að tryggja vafasamar niðurstöður í margra áratuga gömlum deilum verður tíma þingsins lítið varið í að sinna þeirri uppbyggingu sem þörf er á. Ákall samfélagsins er ekki eftir veiplögum eða steralögum eða bitlingum til auðmanna. Ákallið er eftir eftirsóknarverðri framtíðarsýn.

Árangurinn sem næst í öllum geirum samfélagsins, vegna dugnaðar fólks sem kann að nýta tækifærin, sýnir að fólkið í landinu hefur gífurlegan metnað fyrir því að gera vel. En þessi árangur næst þrátt fyrir stjórnmálastéttina þar sem metnaðurinn snýst því miður oftast um að koma í veg fyrir góðar hugmyndir úr röngum flokkum og greiða leiðina fyrir vondum hugmyndum sem henta ákveðnum hagsmunahópum frekar en að sýna sama metnað og almenningur sýnir fyrir því að skapa fleiri tækifæri og betri.

En framtíðin kemur samt og margar spennandi hugmyndir varða leiðina að henni. Stéttir vinnandi fólks munu njóta góðs af sjálfvirknivæðingu sem getur leitt til aukinnar framleiðni, styttri vinnutíma, betri heilsu, meiri frítíma og aukinnar lífshamingju. En á meðan úreldar hugmyndir um dugnað og skiptingu auðs ráða ferðinni er hætt við að þróunin muni stuðla að frekari misskiptingu.

Auður þjóðarinnar verður líka sífellt háðari tölvutækni, véltækni og líftækni sem auðveldar okkur að njóta góðs af hinni nýju grænu byltingu. En kerfið sem við búum við sýnir tækninni enga auðmýkt og hyglir hinum útvöldu á kostnað þeirra sem stíga þessi framfaraskref. Þannig rýrir allra tap kerfisins auðinn sem við eigum öll réttmætt tilkall til.

Líf og störf hins almenna borgara hafa tekið breytingum undanfarin ár og stuðlað að aukinni eftirspurn eftir húsnæði við hæfi, fleiri samfélagsrýmum og sameiginlegum innviðum á borð við stafrænar smiðjur, nútímavædda skóla og persónumiðaðri heilbrigðisþjónustu. Þegar slíkar samfélagsbreytingar blasa við er það hlutverk löggjafans að bregðast hratt og rétt við af víðsýni og skynsemi. Fyrirsjáanlegar ógnir eru margar. Viðsnúinn aldurspíramídi grefur undan framleiðni. Viðskiptastríð milli stórvelda eru fyrirsjáanleg. Alþjóðlegur skortur á auðlindum gæti framkallað deilur, landvinninga og nýtt ógnarjafnvægi. Loftslagsbreytingar munu gera sum svæði jarðar óbyggileg, drekkja öðrum og tortíma þúsundum dýrategunda nema nægilega stór skref séu tekin strax til að breyta niðurstöðunni. Við höfum tækifæri til að bregðast við þessum ógnum, en við verðum að hafna gömlum kreddum til að geta það.

Og í lok dags eru það börnin okkar sem munu þurfa að lifa í samfélaginu sem við skiljum eftir okkur. Við getum ekki spáð fyrir um hvernig heimurinn þeirra mun líta út, en við getum reynt að tryggja að lífið þeirra verði bæði áhugavert og eftirsóknarvert með því að sá fræjum góðrar vegferðar sem þau geta síðar uppskorið. Í öllum þessum dæmum er það okkar að ákveða hvort tækifærin verði til eða hvort ógnirnar muni raungerast.

Við getum svo sem haldið uppteknum hætti og sett lög á illa ígrundaðan hátt eins og alltaf og vonað að annar hvalreki komi og bjargi okkur þegar allt er komið í óefni, en við höfum tækifæri til að gera miklu betur ef við sinnum þessum málefnum vel. Framtíðin mun sýna að okkur var ekki auðið framfara meðan þessi málefni lágu í dauðadái. Það er skylda okkar að ná árangri fyrir fólkið í landinu en ef við bregðumst þessari skyldu okkar munu eftirkomendur okkar undrast framtaksleysið.

Önnur leið er fær. Íslenska þjóðin fór á einni kynslóð úr torfkofunum og inn í upplýsingaöld. Möguleikar næstu kynslóðar eru jafn takmarkalausir og við leyfum þeim að vera. Látum því komandi kynslóðir undrast það hversu miklum árangri var náð á stuttum tíma. Látum þær tala um gullöldina þegar orðræðunni var breytt og framtíðin var mótuð. Látum þær minnast okkar sem hér erum með eftirsjá en með skilning á því hvað er hægt að gera með góðum samtakamætti. Það væri, held ég, góð arfleifð fyrir okkur öll sem hér erum.