141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

ársreikningar.

94. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum nefndarálit hv. efnahags- og viðskiptanefndar, þ.e. meiri hluta þeirrar nefndar við frumvarp um breytingar á lögum um ársreikninga. Þau lög taka til allra fyrirtækja eða aðila sem eru með takmarkaða ábyrgð sem þýðir að þegar viðkomandi lögaðili fer í gjaldþrot ber eigandi eða eigendur ekki ábyrgð á þeim skuldum sem eftir standa þegar búið er að selja eignir og greiða upp í skuldir.

Það er mikil greiðvikni af hálfu skattgreiðenda að veita athafnafólki það frjálsræði að geta stofnað til skuldbindinga án þess að þess sé krafist að það greiði þær upp við gjaldþrot heldur eru bara eignir í þrotabúinu látnar duga. Það hefur orðið til þess að mörg okkar velta því fyrir sér af hverju skattgreiðendur geri ekki ríkari kröfur til lögaðila með takmarkaða ábyrgð en raunin hefur verið, af hverju það þykir ekki sjálfsagt að eigendur upplýsi um eignarhald og þá ekki bara á öllum lögaðilum sem eiga í viðkomandi fyrirtæki heldur líka á því hvaða einstaklingar eiga lögaðila sem eiga í viðkomandi fyrirtæki.

Slíkar upplýsingar munu tryggja eitt af áhugamálum hv. þingmanns, frjálsan markað, frjáls viðskipti, því að ein af forsendum þeirra er að allar upplýsingar séu uppi á borðinu. Það þarf ekki að ganga í Evrópusambandið til þess að ganga í frjálsan markað (Forseti hringir.) heldur bara að breyta lögum.