144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[17:14]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók það sérstaklega fram að ég teldi rétt að menn stæðu við það að fella niður halla eins og á Landspítalanum. Ég fagna því að hæstv. ráðherra segir að mótað verði skýrt verklag og staðið við samninga sem gerðir voru milli stofnunar og ríkissjóðs um að fella niður halla. Það hefur ekki verið nein regla á þessu, frekar verið að taka geðþóttaákvarðanir.

Hæstv. ráðherra segir að gripið hafi verið til aðhaldsaðgerða, það eru engir 17 eða 20 milljarðar sem voru leiðréttir því að miklu betri afkoma varð á ríkissjóði síðari hluta ársins án inngripa ríkissjóðs og það gekk miklu betur með reksturinn en hæstv. ráðherra spáði í viðtölum þegar hann tók við til að hræða almenning. Ríkissjóður var rekinn með afgangi á árinu 2013 ef frá eru taldir óreglulegir liðir, segja til dæmis markaðspunktar bankanna, þ.e. frá Arion banka. Menn stóðu við reksturinn að mestu leyti (Forseti hringir.) án þess að nýja ríkisstjórn þyrfti til. Ég held að menn væru meiri að því að játa hvernig fyrri ríkisstjórn tók á þessu sameiginlega með þjóðinni, hvaða árangri hún hafði náð. Nóg geta menn svo hælt sér af einhverju þar fyrir utan ef því er að skipta.