148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

Þjóðskrá Íslands.

339. mál
[22:09]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, það var tillaga frá Pírötum í fyrra sem fór í gegn og varð að lögum sem snerist um að aðgangurinn að fyrirtækjaskrá yrði opnaður. Það er kannski rétt að útskýra að fyrirtækjaskrá hjá ríkisskattstjóra er ein skrá af þremur. Reyndar er hún nokkrar mismunandi skrár af því að inni í henni er einkahlutafélagaskrá, hlutafélagaskrá o.s.frv. Fyrirtækjaskrá er aðgreind frá því sem er kallað hluthafaskrá og því sem er kallað ársreikningaskrá. Frumvarpið átti að gera það að verkum að fyrirtækjaskráin yrði almennt aðgengileg samkvæmt lögum og að það yrði enginn kostnaður af rafrænni uppflettingu í gegnum netið. Svo gerist það að hjá ríkisskattstjóra voru gerðar litlar breytingar sem opnuðu á að einn af ábyrgðaraðilum fyrirtækisins sé birtur en ekki t.d. stjórn fyrirtækisins. Almennt er skráin ekki orðin opinber á þann hátt sem lög mæla fyrir um.

Hluti af skýringunni virðist vera einhver tregða til þess að opna hana alveg eins og skilningur þingsins var. Það er vísað í að orðalagið sé ekki nægilega ljóst. Af þeim sökum koma um 20 millj. kr. á ári inn til ríkisskattstjóra til að fjármagna eitthvað í utanumhaldi. Hvort það sé réttlætanlegt? Ég trúi því ekki. Creditinfo er stærsti viðskiptavinurinn að mig minnir. Það er held ég ljóst að það átti að taka á þessu enda lögðum við fram nýtt frumvarp núna til að gera einmitt það.