Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[15:08]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Um nokkra vikna skeið hefur samfélagið verið á öðrum endanum vegna bankasölu ríkisstjórnarinnar. Í síðustu viku óskaði stjórnarandstaðan eftir því að þing kæmi fyrr saman úr páskaleyfi til að ræða þetta en hæstv. forsætisráðherra taldi enga ástæðu til þess að stytta páskaleyfi ríkisstjórnar eða þings. Um hádegi á miðvikudag í síðustu viku var óskað eftir því að hæstv. forsætisráðherra, hæstv. viðskiptaráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, kæmu hér til að eiga orðastað við þingheim um bankasöluna þar sem þessir þrír ráðherrar eiga sæti í ráðherranefnd um efnahagsmál og framtíð fjármálafyrirtækja. Því hefur þráfaldlega verið neitað af hálfu hæstv. forseta. Hann neitar því að þingheimur geti fengið að eiga orðastað við þessa þrjá ráðherra hér undir öðrum lið en óundirbúnum fyrirspurnum, sem er auðvitað afskaplega takmarkaður. Eðli málsins samkvæmt þarf að ræða við alla þrjá ráðherrana. Þau hafa öll tjáð sig um það sem átti sér stað í aðdragandanum. Þau bera sameiginlega ábyrgð á þessu. (Forseti hringir.) Forsætisráðherra er forsætisráðherra og því eðlilegt (Forseti hringir.) að við getum óskað eftir skýrslu frá öllum þremur ráðherrum eða a.m.k. að þau komi hér og taki þátt í umræðu um skýrslugjöfina.