Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

almannatryggingar.

72. mál
[17:58]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um frumvarp til laga um afnám skerðingar vegna atvinnutekna, frumvarp Flokks fólksins. Það sorglega við þetta mál er að núna er verið að leggja það fram í fimmta sinn. Það segir meira en margt annað um hvernig ríkisstjórnin horfir á eldri borgara þessa lands. Við höfum Tryggingastofnun ríkisins, sem ég kalla oftast skerðingarstofnun ríkisins, eins og hún er í dag, vegna þess að þessi stofnun á auðvitað að vera þjónustustofnun fyrir eldri borgara og öryrkja en er því miður refsistofnun til að sjá til þess að allar þær skerðingar og keðjuverkandi skerðingar sem eru í kerfinu taki nú örugglega af þeim sem minnst hafa í almannatryggingakerfinu. Það frítekjumark sem er í dag, 200.000 kr., er langt frá því að vera rétt, vegna þess að ef það hefði verið uppfært samkvæmt launavísitölu, eins og á að gera með lífeyrislaun þegar það er hagkvæmara, og það eru nú yfirleitt hagkvæmara, annars eftir vísitölu neysluverðs, þá væri þetta frítekjumark ekki undir 300 þúsundum, myndi ég telja. Ríkisstjórnin hefur alltaf beitt þeirri undarlegu aðferð að hækka aldrei svona hluti nema eftir einhvern ákveðinn tíma, tvö, þrjú, fjögur, fimm ár, og þá bara um brot af því sem það ætti að vera. Þetta gildir líka um þetta 25.000 kr. frítekjumark sem er fyrir lífeyrissjóði. Það ætti ekki að vera undir 40.000 kr. í dag ef það hefði fylgt verðlaginu, launavísitölu. Þannig að, eins og ég segi, ríkisstjórnin er alltaf að klekkja á þeim sem síst skyldi.

Það er eitt það furðulegasta í okkar íslenska þjóðfélagi, okkar samfélagi, þessi ótrúlega heimska og forræðishyggja yfir fólki. Ég veit ekki hvaðan þetta er sprottið og komið upp, en það er það að banna fólki að vinna. Ekki banna, en ef þú dirfist að vinna skal ég sko skerða þig. Þá skaltu ekki fá nein laun fyrir þessa vinnu vegna þess — vegna hvers er það? Jú, þú varst skyldugur til að greiða í lögþvingaðan eignaupptökuvarinn lífeyrissjóð, lögþvingaður. Það dugir þessum mönnum ekki. Við vitum það að staðreyndin er sú að þeir sem eru með 400.000 kr. í laun á mánuði þegar þeir eru að fara á eftirlaun fá 56% af því. Þetta eru 212.000 kr. úr lífeyrissjóði og það segir sig sjálft að með þær tekjur, sem eru síðan skattaðar um 37%, 25.000 kr. frítekjumark og síðan 45% skerðingar, þýðir það á mannamáli hreinlega eignaupptöku á þessum lögþvingaða sparnaði. En þær ríkisstjórnir sem komu þessu á og hafa viðhaldið þessu fóru auðvitað þá leið að þeir skerða ekki lífeyrissjóðinn heldur skerða þeir bæturnar frá Tryggingastofnun ríkisins. Þeir verja það þannig að viðkomandi fólk sé að fá úr lífeyrissjóði sínum og fái þar af leiðandi minna frá Tryggingastofnun. Aftur á móti vitum við, eins og ég segi, að einstaklingur sem er heima, hvort sem það er öryrki eða eldri borgari, fær ákveðnar greiðslur frá lífeyrissjóði og Tryggingastofnun, hann vinnur ekki, og þá fær ríkið ákveðnar tekjur. En ef þessi einstaklingar væri að vinna, þá segir það sig sjálft að ríkið fengi skatttekjur.

Að reyna að sannfæra einhvern um að það sé betra og þægilegra að hafa hlutina á þennan hátt er heimska og getur aldrei staðist vegna þess að það er alltaf hagkvæmara fyrir ríkissjóð að fólk vilji vinna, þeir sem geta það. Ef við tökum bara dæmi — við skulum segja að þetta hefðu verið 3 milljarðar í upphafi þegar við lögðum þetta frumvarp fram, sem væri innkoma, sem ríkið væri að fá meira, þá værum við að tala um núna í dag ekki minna en á milli 20 og 30 milljarða, lauslega útreiknað, sem ríkissjóður er búinn að missa af. En það eru einmitt peningar sem hefði síðan verið hægt að nota til að aðstoða þá sem er nauðsynlegt að hjálpa og þarf að hjálpa, þ.e. að aðstoða þá sem eru verst settir í kerfinu.

Þetta er arfavitlaust kerfi. Það sýnir bara heimsku og fjárhagslegt ofbeldi þessarar ríkisstjórnar þegar hún getur sett það á að ákveðinn hópur eldri borgara eigi að fá lágmarksellilífeyri. En það dugir þeim ekki til heldur er það haft 10% minna. Og það dugir þeim heldur ekki til. Það var ekki næg refsing fyrir viðkomandi heldur þurfti að fá krónu á móti krónu skerðingar þar ofan á. Núverandi ríkisstjórn tók aftur upp krónu á móti krónu skerðingar og setti bara einn ákveðinn hóp, eldri borgara sem eru í þeirri stöðu að fá líka búsetuskerðingar, sem hefur 10% undir lágmarksellilífeyri.

Síðan er annað annars staðar í kerfinu sem er þeim til háborinnar skammar og það er að þegar öryrki verður ellilífeyrisþegi þá þarf að refsa honum líka, þá þarf hann að lækka. Flestallir öryrkjar sem verða ellilífeyrisþegar þurfa að lækka í tekjum, sem ætti að vera alveg þveröfugt vegna þess að ef þú ert öryrki og jafnvel búinn að vera öryrki allt þitt líf þá ertu ekki betur staddur þegar þú verður 67 ára. Ég varð 67 ára og ég prófaði að henda frá mér hækjunum. En ég vissi það auðvitað að ég myndi detta beint á hausinn vegna þess að ég varð ekkert heilbrigður bara út af því, það var ekkert kraftaverk sem skeði. Og það er ekkert kraftaverk að ske, það er bara verið að refsa fólki.

Það sem er kannski furðulegast í þessu samhengi er að þeir virðast gera þetta bara af því að þeir geta gert þetta. Það eru engin rök fyrir þessu, engin haldbær rök fyrir því að haga sér svona gagnvart fólki sem hefur byggt upp þetta land, gagnvart veiku fólki sem getur ekki varið sig. En einhverra hluta vegna þá finnst þeim, sem hér eru fullfrískir og heilbrigðir og hafa völdin, að þeirra sé rétturinn til að refsa þessu fólki. Ég spyr mig bara að því: Hvers vegna í ósköpunum eru þessir flokkar kosnir aftur og aftur til þess að viðhalda þessu kerfi? Vegna þess að ef við hefðum einhverja heilbrigða skynsemi myndum við sjá til þess að gjörbreyta þessu kerfi, gjörsamlega gjörbreyta því; henda því og koma með nýtt mannúðlegt kerfi þannig að Tryggingastofnun væri að gera það sem hún á að gera: þjónusta fólk, benda fólki á rétt sinn þannig að það geti lifað mannsæmandi lífi, en ekki að vera að skerða og skerðingarstofnun ríkisins að reyna að klekkja á fólki til að reyna að ná af því rétti þess.