Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[15:16]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég gleðst yfir því að hæstv. forsætisráðherra hafi svarað því jákvætt að mæta hér í sérstaka umræðu á morgun til að ræða þetta fordæmalausa mál. Óskað var eftir svari um þetta á hádegi síðasta föstudag og þess vegna erum við í þessari stöðu núna að vera örlítið hvumsa yfir fjarveru hennar. En það er gott að heyra að hún ætli að mæta hér á morgun.

Ég vil líka nota tækifærið til að minna aðra ráðherra í ríkisstjórn Íslands á að þeir eru einnig þingmenn og geta því tekið hér þátt í umræðunni og ég skora á þá að taka þátt í umræðunni. Hæstv. matvælaráðherra hefur líka tjáð sig um þessa bankasölu og sagt hana alls ekkert klúður. Það væri gott að fá hennar afstöðu í dag. Orðið er frjálst í dag. Allir þingmenn mega taka þátt, tíu mínútur í fyrstu umferð, fimm mínútur í annarri umferð, andsvör leyfð, þannig að ég á von á líflegum umræðum hér í dag og hvet alla þingmenn, stjórn og stjórnarandstöðu, til þess að láta ljós sitt skína sem og þá sem gegna ráðherraembætti tímabundið.