135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

skattamál.

[13:36]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður sem tilheyrir stjórnarliðinu og hefur stutt ríkisstjórnir undanfarin ár ætti kannski að velta því fyrir sér hvers vegna það er sem menn ræða nú neyðarráðstafanir í efnahagsmálum á Íslandi og skrifa um það langar blaðagreinar í opnu Morgunblaðsins að grípa verði til viðamikilla ráðstafana annars fari hér allt í kaldakol. Það er alla vega ekki við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð að sakast í þeim efnum. Við höfum ekki hagað hagstjórn á Íslandi þannig undanfarin ár að nú þurfi að grípa til neyðarráðstafana, halda neyðarfundi með bönkunum sem reyndar ekkert kemur út úr, en það er önnur saga.

Við höfum talið að það svigrúm sem væri til skattalækkana ætti fyrst og fremst að gagnast lágtekjufólki á Íslandi sem hefur fengið á sig auknar skattbyrðar á undanförnum árum vegna þess að skattleysismörk hafa ekki fylgt verðlagi hvað þá launaþróun. Þó að sú hækkun persónuafsláttar verði nú, sem boðuð er í tveimur áföngum, vantar mikið upp á að skattleysismörkin komist upp í það sem þau ættu að vera þegar núverandi kerfi hélt innreið sína, tugi þúsunda kr.

Í öðru lagi höfum við haft útfærðar hugmyndir um hvernig breyta ætti álagningu fjármagnstekjuskatts og það er óbreytt afstaða okkar að það væri betra kerfi og réttlátara kerfi að taka upp frítekjumark og hlífa almennum sparnaði við skattlagningu en þeir sem hafa miklar fjármagnstekjur greiddu eitthvað meira í staðinn, t.d. 14% í staðinn fyrir 10 og samt væri fjármagnstekjuskattur á Íslandi eftir slíka breytingu með því lægsta sem þekkist í heiminum.

Við höfum í þriðja lagi ekki talið það forgangsverkefni að lækka enn frekar skatt á fyrirtæki. Það er búið að gera mjög vel í þeim efnum og tekjuskattur lögaðila á Íslandi er með því lægsta sem þekkist innan OECD, verður sá næstlægsti sem fyrir finnst með breytingunum úr 18% niður í 15. Og hafi hv. þingmaður ekki áttað sig á því enn þá, þá er Vinstri hreyfingin – grænt framboð ekki nýfrjálshyggjuflokkur. Við trúum ekki á hagfræði Chicago-háskólans heldur (Forseti hringir.) á öflugt, félagslegt samábyrgt velferðarkerfi og til að standa straum af því þarf tekjur.