135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

skattamál.

[13:41]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Þegar ég hlýði á mál hv. þingmanna Birgis Ármannssonar og Sigurðar Kára Kristjánssonar um lægri skatta og aukna velferð velti ég því fyrir mér hvort það þýði þá líka engir skattar, hámarksvelferð. Það er nú svo að við búum við ákveðið kerfi og spurningin er hvernig við forgangsröðum í skattamálum. Við frjálslynd höfum lagt megináherslu á að jafna þann velferðarhalla sem ríkt hefur í skattamálum, velferðarhalla sem Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuðábyrgð á þar sem láglaunafólk í þjóðfélaginu hefur borið og þurft að bera æ þyngri skattbyrðar. Það er kannski um þau atriði sem við ættum að fjalla sérstaklega í dag.

Við frjálslynd höfum lagt megináherslu á það að skattleysismörk verði hækkuð fyrir láglaunafólk upp í 150 þús. kr. Það mundi þýða mestu og bestu velsæld fyrir þá sem mest þurfa á því að halda. Við erum þá ekkert að fjalla um einhverja fornaldarhugmyndafræði kommúnismans um það hvernig stjórna eigi þjóðfélaginu heldur nútímaviðhorf og nútímaaðferðir sem koma þjóðfélaginu og borgurunum sem allra best. Um það snýst málið. En ríkisstjórnin hefur ákveðið að lækka skatta á fyrirtæki sérstaklega, það er ákveðið forgangsverkefni til að niðurgreiða ákveðinn hluta þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið nýlega. Það kann að vera gott og blessað og það kann vel að vera að nauðsynlegt sé að lækka skatta á fyrirtæki en forgangsatriðið í hugum okkar frjálslyndra er að gert sé jafnt við fólk, að skattar séu lækkaðir þar sem mest þarf á að halda. Velferðarhallinn í þjóðfélaginu hefur komið til vegna þess að skattbyrði á láglaunafólk hefur verið að hækka og hækka fyrir tilverknað óslitinnar þrautsetu Sjálfstæðisflokksins í valdastólum frá 1991.