139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er búið að draga upp ljóta mynd af því sem gerist ef samningur sem þessi verður ekki samþykktur. Það hefur hv. þingmaður kannski ekki gert beint en hennar flokkur og forustumenn hafa gert það mjög mikið í þinginu.

Hvað hefur ræst af þessu? Hv. þingmaður svaraði því ekki. Hvað hefur ræst af þeim hryllilegu atburðum sem áttu að gerast á Íslandi ef Icesave-samningur yrði ekki samþykktur í fyrstu atrennu og annarri atrennu og hvað í ósköpunum getur gerst ef hann verður ekki samþykktur í þriðju atrennu?

Hvar liggur áhættan af samningnum? Ég spurði þeirrar spurningar, ekki hvernig hún var reiknuð út, heldur hvar liggur áhættan, hver ber áhættuna? Er hún Íslandsmegin eða er hún hjá erlendu ríkjunum, þ.e. áhættan af þessum samningi?

Hv. þingmaður segir að lítið hafi gerst í atvinnumálum og vísar til Icesave. Getur verið, hv. þingmaður, að það sé vegna skattstefnu ríkisstjórnarinnar sem lítið gerist í atvinnumálum, vegna þess að það vantar stefnu hjá ríkisstjórninni? Hvar hefur Icesave haft áhrif á atvinnuuppbyggingu nema e.t.v. þar sem pólitískir fjármálaráðherrar og pólítískt kjörnir (Forseti hringir.) fulltrúar Breta og Hollendinga sitja í bankastjórnum (Forseti hringir.) erlendis og hafa þannig tök (Forseti hringir.) og kúga Ísland.