148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

545. mál
[21:18]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég tek undir orð hans og hef svo sem ekki miklu við þau að bæta. Frásagnarlist hefur fylgt Íslendingum um aldir í ýmsu formi. Þeir hafa skrifað upp sögur á pappír, í handrit; sjálf bókaútgáfan er ekkert svo ýkja gömul, frásagnarlistin sjálf er miklu eldri og hefur fylgt okkur miklu lengur í ýmsum búningi, ekki síst munnlegum búningi, þ.e. frásagnarlistin sem er þá flutt fyrir okkur. Mér virðist að það sé að verða sífellt vinsælla hjá fólki að kaupa sér aðgang að slíkum flutningi á skáldsögum og öðrum bókum, þ.e. að fá þetta lesið fyrir sig. Ég held að þar sé að verða til markaðsvara sem á sér mikla framtíð. En þá verðum við líka, löggjafarvaldið hér og yfirvöld, að sjá til þess að slík starfsemi nái að dafna á eigin forsendum og nái að verða arðvænleg og verði ekki kaffærð, annars vegar í of mikilli samkeppni frá opinberum aðilum og hins vegar frá aðilum sem líta svo á að eingöngu neytandinn hafi rétt til listarinnar en framleiðandi listarinnar, listamaðurinn og þeir sem skapa þessu búning, eigi ekki að fá neitt fyrir sinn snúð.