149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir kjarasamningum.

[10:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við stöndum í miðri umræðu um endurskipulag fjármálakerfisins. Ég lagði á dögunum fram hvítbók á Alþingi. Við efndum til umræðu á þinginu. Hv. þingmaður mætti ekki til umræðunnar. Hann kom ekki í umræðuna um hvítbókina. Þar var ég mættur til þess að svara spurningum um hvítbókina og þær tillögur sem þar eru lagðar fram.

Mín skoðun er sú og hefur lengi verið að ábyrg stjórn efnahagsmála skilar mestum ávinningi fyrir heimilin í landinu. Í dag fær ríkissjóður lægstu vexti á verðtryggð skuldabréf sem hann hefur í sögunni fengið. Í dag eru vextir á húsnæðislánum þeir lægstu sem þeir hafa verið, aldrei lægri raunvextir á húsnæðislánum en einmitt í dag. Við getum haldið áfram á þessari braut með ábyrgri stjórn efnahagsmála.

Það að endurskipuleggja fjármálakerfið er mál sem við settum á dagskrá. Það er um það fjallað í hvítbókinni og þar eru fjölmargar tillögur sem ríkisstjórnin mun hrinda í framkvæmd og þannig fikra sig áfram eftir gríðarlega miklar breytingar á regluverki fjármálakerfisins, fikra sig áfram eftir þeirri braut að byggja upp traustara og sanngjarnara fjármálakerfi fyrir heimilin.