149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

helgidagafriður og 40 stunda vinnuvika.

549. mál
[14:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að leiðrétta það sem sagt var um 40 stunda vinnuviku. Það eru í raun ákveðin grunnréttindi sem eru ákveðin hér á Alþingi og má, eins og hæstv. dómsmálaráðherra talaði um, kannski túlka sem ákveðin mannréttindi sem slík. Það kæmi þá inn á hennar svið á þann hátt.

Í 7. gr. um 40 stunda vinnuviku stendur einmitt, með leyfi forseta:

„Víkja má frá lögum þessum með samningum, sem staðfestir eru af hlutaðeigandi heildarsamtökum.“

Jú, kannski er það sjónarmið að hægt sé að losa sig við þessi lög en að mínu mati setja þau ákveðinn ramma sem þá er hægt að semja um til eða frá hvað önnur réttindi varðar. Ég held að það sé nauðsynlegt — það þarf ekkert endilega að eiga heima í lögum um 40 stunda vinnuviku, gæti verið í vinnuverndarlöggjöf og svoleiðis — að við setjum okkur þennan grunnramma um dagvinnutíma í lögum á einhvern hátt. En það hefur einmitt ekki áhrif á kjarasamninga á neinn hátt nema sem viðmið, og þá með tilliti til þeirrar réttindabaráttu sem hefur átt sér stað á undanförnum 200 árum sem snúist hefur um að hafa hemil á því hvernig fyrirtæki fara með vinnutíma fólks.

Ég tel lög um 40 stunda vinnuviku, óháð því hvort það sé nákvæmlega í þeim lögum eða í vinnuverndarlöggjöf eða eitthvað því um líkt, algerlega nauðsynleg. Og 7. gr., um að víkja megi frá þeim lögum til eða frá, með þessum almennu samningum, er bara mjög góð ofan á það.

Þess vegna þarf að mínu mati ekki að afnema þau lög.