149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

sjúkratryggingar.

513. mál
[15:28]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla eins og fleiri að þakka kærlega fyrir framlagningu þessa frumvarps og hefði gjarnan viljað vera meðflutningsmaður á því og tek undir öll meginmarkmið þess — og þá velti ég fyrir mér af hverju ég er að koma hingað upp og eyða tímanum þegar við erum eiginlega öll sammála um þetta. En mig langaði bara örstutt að nefna að mikil vinna hefur átt sér stað í þessa átt. Aðgerðaáætlun um geðheilbrigðismál tók sérstaklega á því að fjölga ætti sálfræðingum á heilsugæslustöðvum, eins og hv. þm. Guðjón S. Brjánsson kom inn á. Eitthvað skortir þó enn á það á landsbyggðinni, en ég held að komnir séu sálfræðingar til starfa á allflestum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu.

Þá langar mig að nefna, eins og við ræddum hér í vikunni, fjarlækningar og þá möguleika sem eru í þeim efnum, að þegar kemur að þessari heilbrigðisþjónustu, þá er sálfræðiþjónusta eins og hver önnur heilbrigðisþjónusta. Ég held að við þurfum heldur betur að fara að bretta upp ermar og nýta okkur tæknina í þeim efnum.

Í nefndaráliti með geðheilbrigðisáætluninni, sem ég var að renna yfir hérna áðan, er einmitt tekið skýrt fram mikilvægi þess að stíga næstu skref og að næsta skref í kjölfar fjölgunar sálfræðinga í heilsugæslunni ætti að vera niðurgreiðsla á sálfræðimeðferð fyrir fleiri en börn, eins og staðan er í dag.

Ég hygg að það sem hér er mælt fyrir sé bara eðlilegt framhald af þeirri vinnu sem átt hefur sér stað á síðustu árum í þessum efnum og ég fagna því hversu margir flutningsmenn eru á frumvarpinu og hvað þeir sem hafa tjáð sig í dag hafa tekið vel í málið.

Mig langar líka að nefna að ég er á þeirri skoðun að eðlilegt sé að rekstrarumhverfi í heilbrigðisþjónustu megi vera blandað, þ.e. mér finnst eðlilegt að heilbrigðisþjónusta sé sem allra mest á kostnað hins opinbera, en rekstrarformið geti verið fjölbreytt. Við þekkjum það auðvitað mjög vel, t.d. í tannlækningum og í sálfræðiþjónustu, að það eru almennt einkaaðilar, oft og tíðum einyrkjar, en líka einyrkjar sem hafa tekið sig saman í einhvern rekstur. Ég sé ekkert athugavert við það og finnst það bara eðlilegt að einstaklingar hafi frelsi um hvert þeir sæki sína heilbrigðisþjónustu. Hvað sálfræðiþjónustuna varðar er hefð fyrir því að einkaaðilar sjái meira um hana, þó að mér finnist líka eðlilegt að þeir séu á opinberum heilsugæslustöðvum svo og einkareknum heilsugæslustöðvum.

Svo eru sálfræðingar á geðsviði Landspítalans og fólk getur komið þangað inn á göngudeild og fengið viðtal hjá sálfræðingi. En ég hygg að hér séum við frekar að horfa til meðferðar þar sem sálfræðingar veita heildstæða meðferð, frekar en eitt og eitt stakt viðtal, og þá sé eðlilegt að einhvers konar vottorð komi frá sérfræðingi eða heimilislækni, eins og tekið er fram í frumvarpinu, sem sé forsenda þess að viðkomandi geti farið og nýtt sér þjónustu viðkomandi aðila.

Mig langar líka að nefna — ég held að það sé örugglega talað um hugræna atferlismeðferð tilfinninga í greinargerðinni, getur það passað? Já. Fjallað er um hana í greinargerðinni og í nefndaráliti með geðheilbrigðisáætluninni. Má segja að það sé eitt af því sem bent er á sem fyrsta klíníska úrræðið þegar kemur að ýmiss konar geðheilbrigðismálum.

Þá minnist ég þess reyndar líka að ég held að það hafi verið fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Óttarr Proppé, sem talaði fyrir því að við ættum að fara með slíka meðferð inn í skólana sem hluta af fræðslustarfinu okkar. Ég man hvað mér hugnaðist það vel og ég þekki líka alveg þá umræðu að kennarar og skólasamfélagið segir oft hingað og ekki lengra, því að við ætlum að setja einhvern veginn allt inn í skólana. En hafandi fengið tækifæri til að fara í gegnum námskeið í hugrænni atferlismeðferð get ég vottað hversu oft það hefur reynst manni vel að kunna á þau tæki og tól í daglegu lífi.

Ég vil einnig nefna að mér finnst full ástæða til að horft sé til þess hvort hægt sé að koma slíku fyrir í skólakerfinu og í rauninni fræða börnin okkar fyrr um það hvernig hægt sé að vinna með sína líðan.

Ég tel enga ástæðu til að lengja umræðuna frekar. Ég segi bara að ég styð þetta mál, mér finnst tími til kominn að við stígum þetta skref og fagna því hversu margir hafa tekið jákvætt í það.