154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

vextir og verðtrygging o.fl.

109. mál
[13:22]
Horfa

Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ágúst Bjarni Garðarsson sagði að margt hefði verið gert á húsnæðismarkaði en ég er reyndar ekki sammála því og það sem hefur verið gert er of lítið og kemur allt of seint. Ég er búin að svara því hvað eigi að gera. Það þarf bara að búa til almennilegan lánamarkað hér með skaplegum vöxtum og það gerist þegar verðtryggingin verður afnumin. Það er hún sem er stærsti skaðvaldurinn í íslensku efnahagskerfi. Það kemur mjög vel fram í öllu því sem ég fór með og hafði eftir dr. Ólafi Margeirssyni. Önnur lönd eru með lægri stýrivexti. Já, þau eru með lægri stýrivexti vegna þess að þar hafa bankar og fjármálastofnanir einfaldlega hag af því að halda niðri verðbólgu vegna þess að þeir verða að hafa eitthvað út úr þessum lánum sem þeir eru með. Hvað varðar neikvæða raunvexti þá hefur seðlabankastjóri ítrekað sagt að það megi ekki vera neikvæðir raunvextir á Íslandi. Það er bara ekki rétt að það megi ekki vera. Það hafa t.d. verið neikvæðir raunvextir síðastliðin, ég man það ekki, tíu ár, ég þarf nú að tékka á því, í Bretlandi og víðar vegna þess að það er engin krafa um annað og það er bara fáránleg krafa að ætla að raunvextir séu jákvæðir hvern einasta mánuð, alltaf. Það eiga að jafnaði að vera jákvæðir raunvextir en ekki endilega stöðugt.

Varðandi það hvort pólitíkusar eigi að hafa afskipti af Seðlabankanum og vaxtaákvörðunum hans þá vil ég meina að enginn, hvort sem það heitir seðlabankastjóri, peningastefnunefnd eða fólk sem enginn hefur kjörið, eigi að geta komið heimilum landsins í tugþúsunda tali í svona mikil vandræði eins og núna. Í lögum um Seðlabankann — ég er ekki að mæla með allt of miklum afskiptum stjórnmálamanna og við þurfum að finna einhvern veg þarna — eru engir varnaglar. Það gengur ekki að kjörnir fulltrúar sitji á Alþingi á meðan verið er að leiða heimilin í jafn miklar ógöngur og raun ber vitni og yppti bara öxlum og segi: Við getum ekkert gert. Það er algjört rugl. Það er ekki seðlabankastjóri sem stjórnar þessu landi.