154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

vextir og verðtrygging o.fl.

109. mál
[13:54]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við skulum aðeins spyrja okkur: Hvað er verðtrygging? Hún er í sjálfu sér ekkert annað en eitt form á vöxtum, þ.e. vextir sem eru tengdir við ákveðin index eða ákveðna vísitölu. Vextir á Íslandi eru háir vegna þess að við búum við gjaldmiðil sem hefur í 100 ár verið að tapa verðgildi sínu og heldur bara áfram að tapa verðgildi sínu ár eftir ár okkur, sem fáum greitt í þessari mynt, til skaða. Það er engin tilviljun að öll umræða um afnám verðtryggingarinnar leiðist út í það að við þurfum að taka á því vandamáli, þ.e. gjaldmiðlinum, vegna þess að hann er vandamál. Það er örgjaldmiðillinn sem þetta snýst um.

Eins og áður segir, eins og ég sagði í fyrra svari mínu hér áðan, þá eru auðvitað til aðrar leiðir til að skipta um gjaldmiðil. Það er hægt að taka upp bandaríkjadal eða sterlingspund eða kanadadollara eða norska krónu, en fyrir okkur sem fullvalda þjóð inni á hinu Evrópska efnahagssvæði liggur mjög beint við að stefna að því að taka upp evru. Ef við myndum sýna viðleitni til þess að endurvekja aðildarumsóknina að Evrópusambandinu og stefna á það að taka upp nýjan gjaldmiðil þá myndum við mjög fljótt finna áhrifin af því á okkar gjaldmiðil. Við myndum fljótlega festa hann við evruna og við myndum þar af leiðandi losna út úr þessu afleita ástandi sem við höfum verið í. Ég bara get ekki tekið meira undir með hv. flutningsmanni þessarar tillögu um það hversu ömurlegt og afleitt þetta ástand er. Við erum ekki alveg sammála um leiðirnar en við erum sammála um markmiðin.