150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

grunnskólar.

16. mál
[18:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að leggja þetta frumvarp fram og sérstaklega fyrir ræðuna hennar sem gat að mörgu leyti verið töluð úr mínu hjarta. Það er augljóst að við höfum átt mikla samleið í pólitík í gegnum tíðina. [Hlátur í þingsal.] Ég fagna því að þetta frumvarp sé fram komið og öllu því sem fram kom í máli frummælandans, að hér erum við að tryggja jafnt aðgengi sem skiptir öllu máli fyrir menntakerfið okkar, jöfn tækifæri fyrir alla en jafnframt frelsi einstaklingsins til að velja það sem honum hentar best, hvort sem það kann í þessu tilfelli að vera börnin sjálf eða foreldrarnir sem bera hag barnsins fyrir brjósti.

Það að við byggjum upp fjölbreytni í skólakerfinu okkar skiptir líka máli því að alveg eins og hv. þingmaður kom vel inn á eru ekki öll börn eins og þeim henta mismunandi leiðir til að nema. Fjölbreytileikinn ýtir líka undir ákveðna samkeppni sem er holl, jafnvel þó að um sé að ræða hina hefðbundnu skóla sem reknir eru af sveitarfélögunum. Það er alltaf gott að fólk sé mjög meðvitað um að vera á tánum, leyfi ég mér að orða það, og standa sig vel. Þannig aukast gæðin og þannig stuðlum við að betri skólum sem hlýtur að vera stóra málið í þessu öllu saman.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið þó að maður lengi hana raunverulega alltaf með því að koma upp í púlt. Mig langar að lýsa stuðningi við það að þetta frumvarp sé fram komið og ég vona að það fái góða og gagnlega umræðu í allsherjar- og menntamálanefnd.

Mig langar þó aðeins að benda á að þegar við erum að tala um prósentur, kannski fyrst að segja það af því að hv. þingmaður kom aðeins inn á það, að einmitt Reykjavíkurborg hefur svolítið setið eftir í gegnum árin ef miðað er við höfuðborgarsvæðið. Ég held að sveitarfélögin í kringum höfuðborgina hafi staðið sig miklu betur í að greiða með börnum sem hafa kosið að fara í sjálfstæða skóla. En það er gott að það sé bót á því. Prósentutölurnar, eins og ég hef skilið að unnið sé með þær — við erum að tala um að fara úr 75% í 90% og svo 70% í 85%. Það er gott og gilt því að mér finnst eðlilegt að fjármagn fylgi barni en þarna er miðað við meðaltal heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla á landinu. Það er svolítið vítt. Ég þekki vel t.d. rekstur grunnskóla í Mosfellsbæ, stórra skóla, 600–700 barna skóla, mjög góða skóla, og það er ákveðin hagkvæmni í stærðinni og það geta meira að segja líka verið mikil gæði í því fólgin að hafa stórar einingar. Á ýmsum stöðum úti á landi er svolítið verið að berjast í bökkum. Ég er ekki að segja að skólarnir séu síðri þar en það er erfiðara að reka skóla þegar maður er með mun færri börn og erfitt að manna allar stöður. Það hefur eðlilega kallað á aukinn kostnað. Það má því velta fyrir sér hvort það eigi að horfa á einhverja aðra tölu en meðaltal yfir alla skóla í landinu. Kannski ætti að horfa á þá frekar svæðisbundið. Ég veit að við erum að vinna með þessar tvær prósentutölur, eftir því hvort það er undir eða yfir 200 barna skólum, af því að það er í lögum, en það hefur líka áhrif hvar menn reka skólana.

Ég vildi bara benda á þetta og ég held að það sé mikilvægt að allsherjar- og menntamálanefnd fari vel yfir það. Þetta kemur líka inn á það þegar verið er að greiða með börnum sem eru að fara í skóla í önnur sveitarfélög, t.d. þegar foreldrar hafa skilið og börn eru með lögheimili á öðrum stað. Ég veit að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa til að mynda gert með sér ákveðið samkomulag um hvernig eigi að nálgast þau mál. Þetta er bara einn þáttur sem ég vildi benda á en ég fagna framlagningu þessa frumvarps.