133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:59]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er eitt sem ég get tekið undir með hv. þingmanni og það er að setja þurfi höft á framsóknarmenn. Það þarf að setja höft á Framsóknarflokkinn í stóriðju- og virkjunarmálum. Það þarf að setja höft á Framsóknarflokkinn í aðförinni að náttúruperlum landsins. Já, það þarf að setja höft á Framsóknarflokkinn og þar get ég tekið undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni.

Varðandi stóriðjumálin, sem ég mun koma að í seinni ræðu minni, þá vil ég vekja athygli á því að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fluttum einmitt tillögu bæði í fyrra og hittiðfyrra og gerum aftur nú um sundurliðaðar aðgerðir til þess að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. En óstöðugleiki, ójafnvægi, sem forsætisráðherra kallaði reyndar óróa — hann er nú orðvar maður en órói er býsna stórt orð í hans munni — stafar einmitt frá þessum stóriðjuframkvæmdum. Við höfum líka lagt fram tillögu til þingsályktunar um að meta heildararðsemi stóriðju- og stórvirkjanaframkvæmda fyrir þjóðarbúið sem ég held að sé fyllilega kominn tími á að gera, þannig að við séum ekki að gera eins og prófessor við háskólann sagði í morgun þegar hann líkti stóriðjustefnu Framsóknarflokksins og framkvæmdunum við Kárahnjúka við það að vera í ofsaakstri í umferðinni og vonast til að sleppa. Eigum við ekki að hætta þessum ofsaakstri framsóknarmanna í stóriðjumálum í aðförinni gegn náttúruperlunum? Ég held að það sé kominn tími til að við setjum haft á Framsóknarflokkinn og höft á framsóknarmenn í stóriðju-, virkjana- og náttúruspjallamálum.