137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

niðurgreiðsla á rafmagni til húshitunar.

25. mál
[13:53]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið. Ég deili þeirri skoðun með þeim sem hér hafa talað að við viljum auðvitað að ein þjóð búi í þessu landi og að hér sé jafnræði. Við vitum að á þessum köldustu svæðum — við höfum verið að eyða miklum fjármunum og miklum tíma og sérfræðikunnáttu í að fínkemba landið í leit að jarðhita sem nota megi í hitaveitur til að hita sem flest heimili í landinu. Það hefur gengið misvel og sérstaklega það jarðhitaleitarátak sem farið var í þegar þorskaflabresturinn varð. Það hefur gengið misvel þannig að menn eru um það bil að verða búnir að fínkemba þetta en eru enn að leita á síðustu stöðunum.

Það er því næsta verk, eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan, að draga úr húshitunarkostnaði með því að grípa til orkusparandi aðgerða. Sem dæmi má nefna varmadælurnar sem hafa verið notaðar með gríðarlega góðum árangri. Þær nota eingöngu um þriðjung af því rafmagni sem ella væri notað til þess að hita hús á þessum köldu svæðum. Þannig að það er svo sannarlega leið sem við eigum að fara og vonandi eigum við eftir að ná góðum árangri í því að leiða slíkt hitakerfi inn á sem flest heimili.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson talar um að rafmagnsreikningurinn hafi hækkað. Það er ekki vegna þess að niðurgreiðslurnar sem slíkar hafi lækkað því að þær eru enn að meðaltali um 2,70 kr. á kílóvattsstund heldur hefur gjaldskráin hækkað hjá orkusölufyrirtækjunum. Það er eitthvað sem við höfum verið að skoða. Eitt af því síðasta sem ég gerði sem formaður iðnaðarnefndar var að kalla þessi orkusölufyrirtæki til okkar til þess að fara yfir þau mál.

Við verðum stöðugt að fylgjast með þessu. Ég er eins og aðrir þingmenn á þeirri skoðun að við eigum að reyna að jafna búsetuskilyrðin (Forseti hringir.) eins og kostur er.