137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

sumarnám í háskólum landsins.

24. mál
[15:10]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góð orð. Ég vil nefna annars vegar af því að hér er spurt um samspil Atvinnuleysistryggingasjóðs og Lánasjóðs íslenskra námsmanna að þar eru viss vandkvæði á sem tengjast því t.d. að grunnatvinnuleysisbætur eru umtalsvert hærri en lágmarksnámslán, sem er í kringum 100 þús. kr., framfærslulán til einstaklings er rétt rúmlega 100 þúsund, á meðan grunnatvinnuleysisbætur eru nær 150 þúsund. Þessi munur hefur líka gert það erfiðara að fá kerfin til að vinna saman og staða lánasjóðsins er, eins og hv. þingmenn þekkja, mjög þröng eftir að gengið var á eigið fé hans um milljarð í síðustu fjárlögum og ekki von á aukningu í þeim fjárlögum sem fram undan eru. Við áttum okkur á því að þar skapast ákveðið misræmi og þeir sem missa vinnuna segja eðlilega: Hver er hagur minn í því að fara í nám ef ég lækka við það í tekjum? Þetta miðast auðvitað við grunnframfærsluna en eins og hv. þingmönnum er kunnugt miðar lánasjóðurinn síðan við fjölskyldustærð og fleiri breytur þannig að þetta getur komið misjafnlega út, kerfin eru byggð upp á ólíkan hátt sem gerir þetta samspil erfitt á köflum. Ég tel hins vegar að það sé verkefni okkar að reyna að leysa úr því þannig að kerfin a.m.k. vinni betur saman og einhver hvati sé fyrir þá sem hafa misst vinnuna að leita sér menntunar.

Hvað varðar framhaldsskólanemana vonumst við auðvitað til að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til varðandi háskólanemana létti að einhverju leyti pressunni á þeim markaði. En þar sjáum við fram á erfiða tíma og ég nefni sem dæmi að í Reykjavík hefur ekki verið unnt að ráða nema hluta framhaldsskólanema í vinnu, það hefur gengið betur í sveitarfélögunum í kring. Eigi að síður eru sveitarfélögin að reyna að halda uppi ráðningarstiginu á sama stað og það var í fyrra en við sjáum erfiðleika þarna. Við höfum verið að leita hugmynda vegna framhaldsskólanemanna og erum að reyna að tryggja að þeir mæli ekki göturnar heldur hafi einhver verkefni í að sækja, t.d. innan skólanna.