148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

almenna persónuverndarreglugerðin.

[11:05]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég deili hvorki við hv. þingmann né þingheim allan um að þetta mál fær mjög skamma afgreiðslu á þinginu. Ég hefði svo gjarnan viljað að það yrði tekið fyrir miklum mun fyrr og jafnvel að þingið tæki sér heilan vetur til að ræða persónuvernd og þau álitaefni sem koma alveg örugglega upp í framhaldinu. Ég lýsti því í framsögu minni um bæði málin að ég sæi fyrir mér að persónuverndarreglugerðinni sjálfri, GDPR eins og hún hefur verið kölluð af hálfu Evrópusambandsins, verði breytt á næstu misserum. Ég held að það liggi alveg fyrir, álitaefnin eru það mörg.

Nokkrar af þeim athugasemdum sem hafa borist þingnefndinni sem um málið fjallar lúta að túlkun á einhverjum ákvæðum reglugerðarinnar, orðalagi og öðru. Að mínu mati er ekki skynsamlegt að fallast á þær breytingar, þ.e. að taka texta, eins og lagt er til, úr texta frumvarpsins sjálfs, vegna þess að það er reglugerðin sjálf sem gildir. Við höfum ekki svigrúm þar til þess að hverfa frá henni. En það er mjög skilmerkilega gerð grein fyrir þeim ákvæðum þar sem hefur verið svigrúm. Mig minnir að það sé á bls. 36 og áfram í frumvarpinu. Þar er mjög skilmerkilega gerð grein fyrir þeim ákvæðum sem við höfum svigrúm (Forseti hringir.) til að víkja frá og rökstutt með hvaða hætti við víkjum frá reglugerðinni sjálfri.