149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

kjaramál láglaunastétta.

[13:40]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Hér er spurt hvort von sé á einhverju frá ríkisstjórninni. Það eru auðvitað þær tillögur sem kynntar voru fyrir örfáum dögum. Það er það sem ríkisstjórnin hefur verið að vinna að undanfarna mánuði. Þar er einmitt tekið á ýmiss konar kerfisbreytingum í skattkerfinu. Við höfum þegar lagt töluvert meiri fjármuni í barnabótakerfið o.s.frv.

Hér er sagt að það hefði þurft að halda betur á spilunum. Við erum samt með þá stöðu að hér ríkir lítið atvinnuleysi, kaupmáttur hefur aukist og þegar fjallað er um mál sem snerta kannski þessa hópa hvað mest er alveg augljóst, af allri umræðu, að húsnæðismálin eru þar stór þáttur. Þess vegna er sérstök áhersla á þá þætti í tillögum ríkisstjórnarinnar.

Það er ekki eingöngu ríkið sem heldur á þeim málum heldur sömuleiðis sveitarfélögin og þá má alveg velta fyrir sér hvað sveitarfélögin í landinu, og kannski sérstaklega Reykjavíkurborg, hefðu getað gert öðruvísi, haldið betur á spilum til að fleiri íbúðir væru einfaldlega til á markaðnum. En allar okkar aðgerðir miða sérstaklega að því að mæta þessum hópum.