149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:05]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og lögum um gjaldeyrismál, þ.e. um aflandskrónulosun og bindiskyldu á fjármagnsinnstreymi. Frumvarpið er þess efnis að eigendum aflandskróna sé nú heimilt að taka þetta fjármagn sitt út af reikningum sem háðir eru sérstökum takmörkunum eða leysa út innstæðubréf Seðlabankans til kaupa á erlendum gjaldeyri.

Ég ætla að skýra þetta svolítið betur með því að fara aðeins í greinargerðina með frumvarpinu. Þar segir um meginefni frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 37/2016. Markmið breytinganna er að rýmka heimildir aflandskrónueigenda til úttekta af reikningum sem háðir eru sérstökum takmörkunum án þess að það grafi undan virkni bindingarskyldu á fjármagnsinnstreymi.“

Þetta er gert í þrennu lagi, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi er lagt til að aflandskrónueigendum verði heimilt að taka út aflandskrónueignir (í formi innstæðna) af reikningum sem háðir eru sérstökum takmörkunum, eða innleysa innstæðubréf Seðlabankans, til að kaupa erlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi eða alþjóðlegri verðbréfamiðstöð og flytja á reikning hjá erlendu fjármálafyrirtæki erlendis.“

Síðar segir:

„Í öðru lagi er lagt til að aflandskrónueigendum sem átt hafa aflandskrónueignir samfellt frá 28. nóvember 2008, þ.e. þegar fjármagnshöftum var komið á hér á landi, verði heimilt að taka aflandskrónueignir út af reikningum háðum sérstökum takmörkunum eða aflétta kvöðum skv. 5. og 6. gr. laganna af aflandskrónueignum að fenginni staðfestingu Seðlabankans á því að skilyrði um samfellt eignarhald sé uppfyllt.“

Og enn síðar:

„Í þriðja lagi er lagt til að einstaklingum sem eru skráðir eigendur aflandskrónueigna verði heimilt að taka út allt að 100 millj. kr. af reikningum háðum sérstökum takmörkunum, að fenginni staðfestingu Seðlabankans á því að einstaklingur sé raunverulegur eigandi fjármuna sem um ræðir. Heimildin nær til innstæðna og innstæðubréfa Seðlabanka Íslands.“

Hvað er um að ræða? Hvað er hér undir? Það eru 84 milljarðar. Breytingarnar sem lagðar eru til með frumvarpinu fela í sér verulega auknar heimildir aflandskrónueigenda til ráðstöfunar á þessum eignum sínum hér innan lands. Breytingarnar hafa það í för með sér að allir aflandskrónueigendur geta losað krónustöðu með því að kaupa erlendan gjaldeyri, kjósi þeir það.

Þetta er, herra forseti, efnislega það sem við erum að ræða um hérna.

Í greinargerð með frumvarpinu stendur einnig að hér sé stigið eitt lokaskrefið til að afnema fjármagnshöft. Það er fullkomlega óljóst af hverju ráðist er í þetta mál núna og af hverju fallið er frá upphaflegu markmiðunum með þessar aflandskrónueignir. Hvers vegna, herra forseti? Hvers vegna? Hvert var hið upphaflega markmið sem ég er að nefna? Jú, að menn þyrftu að greiða viðbótargjald við óhagstæðara gengi fyrir þessa eigendur. Og hverjir eru þessir eigendur? Látum okkur ekki bregða. Eigendur í þessum flokki — hinna síðustu — eru einmitt þeir sem ekkert hafa viljað gefa eftir, þeir sem lengst hafa hangið á roðinu, þeir sem óbilgjarnastir hafa verið gagnvart erfiðleikunum sem Ísland hefur átt við að stríða eftir hrun. Kannski þeir sömu og veðjuðu á móti krónunni fyrir hrun en þeir eru þá að taka út margfaldan gróða með þessum gjörðum okkar.

Af hverju erum við að gefast upp fyrir þessum mönnum? Af hverju núna, herra forseti? Er það vegna þess að nægt fé er til í ríkissjóði? Hvað má þá segja um neyð þeirra sem búa við örorku og berjast í bökkum við að draga fram lífið af skertum ellilífeyri? Er til nægt fé til þeirra? Á að rétta þeim eitthvað? Nei, við skulum rétta vogunarsjóðunum það, andlitslausum, alþjóðlegum auðjöfrum sem kunna sitt fag, kunna að beygja, já, eigum við ekki að segja að svínbeygja, ríkisstjórnir smáríkja og taka út gróða sinn með hæstu ávöxtun.

Eftirgjöfin er áberandi, herra forseti. Viðsnúningurinn er æpandi, viðsnúningurinn frá upphaflegum markmiðunum, að láta vogunarsjóðina greiða hærra verð fyrir gjaldeyri. Það var upphaflega markmiðið. Nokkurs konar framlag til íslensks samfélags sem mátti þola mikið og stórt áfall við hrunið. Við erum með þessari eftirgjöf að verðlauna grimmustu vogunarsjóðina. Hér getur að líta skipulegt undanhald.

Þetta er eins og að horfa kappleik. Heimaliðinu gengur vel, gengur býsna vel. En hvað gerist svo? Heimaliðið mætir ekki í seinni hálfleikinn. Það er komið í búningsklefana og húkir þar skjálfandi. Þetta er eftirgjöf. Frá sjónarhorni þeirra má segja að þetta sé fullnaðarsigur — ippon, eins og það heitir á júdó-máli.

Maður skyldi einnig halda að svona mál vekti athygli hér á þingi og að stjórnarandstaðan tæki öll þátt í að gagnrýna þetta frumvarp og spyrja stjórnarþingmenn nánar um það. Nei, hér er ekki að sjá nokkurn áhuga. Í salnum núna eru einungis þingmenn Miðflokksins. Og í hliðarherbergjum ekki nokkur maður. Þar var þó hv. þm. Einar Kárason sem hefði nú getað lagt ýmislegt til málanna hér.

Um hvað snýst þetta mál? Það snýst um hagsmuni Íslands. Af hverju ekki að gæta íslenskra hagsmuna? Og hvaða fjármuni erum við að tala um hér, herra forseti? Milljarða, jafnvel tugi milljarða. Hagsmunir í þessu máli hlaupa á milljörðum. Er nægt fé til? Er nægt fé til fyrir aldraðra, til að bæta hag öryrkja, í samgöngur? Við höfum ekki talað svo lítið um samgöngur. Þar hefur verið rifist um 10, 15 og 20 milljónir dögum og vikum saman. Stjórnarandstaðan hefur farið hamförum út af nokkrum milljónum til einstakra verkefna. En hvað er að sjá núna? Enginn áhugi. Hvað erum við að tala um? Milljarða, jafnvel tugi milljarða.

Ég er hissa á þessu, herra forseti.