149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[22:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa spurningu. Ég get ekki neitað því að asinn og þrýstingurinn á að klára þetta mál núna og ábendingar og hótanir um meintan óróa á markaðnum ef við ekki samþykkjum þetta minntu mig óþægilega á frasa sem voru notaðir hér fyrr á öldinni út af öðru máli þar sem því var hótað að Ísland yrði Kúba norðursins ef ákveðnir samningar yrðu ekki uppfylltir. Þar hélt prófessor í hagfræði því fram að hér yrði efnahagslegur kjarnorkuvetur. Það er nú sem betur fer þannig að hagfræðin er ekki vísindi og það hefur sjálfsagt ekki verið annar eins blómatími á Íslandi síðan við fórum að rétta úr kútnum eftir hrun, samfelldur stöðugleikakafli, en það er ekki út af engu. Það er út af því að menn tóku vandaðar ákvarðanir og þorðu að standa í lappirnar. En það er eins og sá eiginleiki hafi hvarflað frá þeim mönnum sem höfðu þó kjark í sér til að taka á með samherjum sínum á árunum 2013 og 2016. Það er eins og þeir séu bara búnir að fá í hnén núna eins og menn gerðu hér fyrr á öldinni, eins og ég hef tekið fram áður. Og hvað ef við samþykkjum ekki þetta frumvarp? Ég held ekki að það verði hér kjarnorkuvetur, hvorki efnahagslegur eða öðruvísi. Og ég held ekki að Ísland verði Kúba norðursins ef við samþykkjum ekki þetta frumvarp. Og ég held ekki að markaðirnir verði alveg rosalega ægilega órólegir. Og ég held að það sé bara undir okkur, þ.e. stjórnvöldum, komið að koma vogunarsjóðum í skilning um það í eitt skipti fyrir öll kannski, eða í eitt skipti, að menn geta ekki gengið hér um eins og ég hef orðað það áður, eins og að fara inn í kaupfélag og afgreiða sig sjálfir og borga eftir minni. Það er bara ekki svoleiðis, herra forseti.