149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:29]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við ræddum í síðasta mánuði um hvítbókina sem átti að vera nokkurs konar framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar, fyrir fjármálakerfið. Ég verð nú að segja að ég sá aldrei þá framtíðarsýn sem teikna átti upp. Bókin er að mínu viti bara samansafn af alls konar hugmyndum frekar en einhverri sýn.

Í hvítbókinni kemur fram að mælt sé með því að selja alls 82% af eignarhlut ríkisins í bönkunum. Það þýðir að selja eigi um helming alls bankakerfis landsins. Gleymum því ekki að eigið fé þessara tveggja banka er í kringum 400 milljarðar, að mig minnir. Einnig hefur verið talað um nauðsyn þess að fá erlendan banka inn í landið. Ég er alveg hlynntur því og tel að það sé mikilvægt upp á að auka samkeppni í fjármálageiranum. Ég held að það væri bara hollt fyrir íslenska bankakerfið ef við fengjum öflugan erlendan banka.

En til að svo megi verða þarf að breyta regluverki, geri ég ráð fyrir, og reyna að hvetja einhvern erlendra banka til að koma hér inn. Þá veltir maður því fyrir sér, og væri gaman að heyra hugleiðingar hv. þingmanns varðandi það: Ístöðuleysi ríkisstjórnarinnar í þessu máli; slakað er á öllum kröfum o.s.frv. Hvaða áhrif heldur hv. þingmaður að það geti haft á að erlendur banki komi inn í landið, vegna þess að þeir geta ekki treyst því að regluverkið standi?