Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:33]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Nú hefur verið farið fram á að greinargerð setts ríkisendurskoðanda verði birt. Það hefur farið fram atkvæðagreiðsla í forsætisnefnd og meiri hluti forsætisnefndar hefur samþykkt það og sýnt vilja sinn til að fá þessa greinargerð birta, en forseti situr á henni og segir: Það er ekki hægt. Það má ekki. Svo er búið að biðja um að fá lögfræðiálitið sem liggur að baki ákvörðun forseta um að birta ekki. Það má ekki sjá það heldur. Svo hefur hv. þingmaður komið með fyrirspurn um að fá að vita hvað stendur í þessari greinargerð og það má ekki einu sinni birta þá fyrirspurn af því að það fellur ekki undir stjórnsýslu Alþingis.

Forseti. Nú er ég ekki lögfræðimenntuð en við erum að tala um upplýsingar, greinargerð sem berst frá settum ríkisendurskoðanda til okkar í þinginu og við fáum ekki að sjá hana. Þetta snýst um upplýsingar. Þetta snýst um plagg, greinargerð sem kemur til þingsins. Auðvitað er þetta stjórnsýsla. Þetta snýst ekkert um ríkisendurskoðanda, þetta snýst um beiðni okkar um upplýsingar sem koma til þingsins (Forseti hringir.) og við eigum rétt á að fá að sjá. Við fáum ekki að sjá þær og það má ekki leggja fram fyrirspurn um að fá að vita hvað stendur í greinargerðinni. (Forseti hringir.)

Má ég bara spyrja einnar spurningar? Afsakið að ég sé að fara yfir tíma, herra forseti, en mér þætti vænt um að fá svar við þessari spurningu: Telur forseti sér skylt að koma í veg fyrir að við fáum aðgang að þessum upplýsingum? Er það skylda forseta? Skilur forseti það sem svo að það sé skylda hans, að hann sé knúinn samkvæmt lögum að gefa okkur ekki aðgang að þessum upplýsingum?