149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

kjaramál láglaunastétta.

[13:34]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að koma mér beint að efninu. Nú er hæstv. ráðherra varaformaður stærsta stjórnmálaflokksins og fer einnig með málefni einnar lægst launuðu kvennastéttarinnar. Fyrst vil ég heyra hvort hún hafi ekki mikinn skilning á því að ræstingafólk, láglaunastétt, sem er að mestu leyti skipuð konum, oft af erlendum uppruna, reyni með öllum tiltækum ráðum að rétta kjör sín.

Hæstv. ráðherra tók undir með fjármálaráðherra og forsvarsmönnum ferðaþjónustunnar í Fréttablaði gærdagsins um að lítið svigrúm væri til launahækkana og taldi einkennilegt að fyrirhuguð verkföll ættu að bitna á þeirri atvinnugrein sem skapað hefði flest störf og mikil verðmæti undanfarinna ára.

Ég skil að ástandið er viðkvæmt. En hverjir eru það sem skapa verðmætin, hæstv. ráðherra? Er það ekki einmitt fólkið sem starfar í greininni, oft á lúsarlaunum? Margt af því fólki hefur flust hingað til lands til að skapa þessi verðmæti fyrir Ísland.

Finnst ráðherra kröfur þessa fólks um betri kjör ekki fullkomlega eðlilegar? Ef já, hvaða lausnir sér ráðherra fyrir sér til að koma á móts við það fyrst hún telur að fyrirtæki standi ekki undir því? Munu stjórnvöld með öðrum orðum leggja fram frekari tillögur en þær sem kynntar voru í síðustu viku?

Ég frábið mér ræðu um að hér sé einn mesti tekjujöfnuður í heimi. Við lifum nefnilega ekki í meðaltölum og lægstu laun duga ekki til framfærslu. Ráðherra mætti einnig gjarnan sleppa lofræðu um skattatillögur ríkisstjórnarinnar þar sem útskýrt er að lægst launaða fólkið hagnist hlutfallslega mest. Fólk greiðir nefnilega ekki fyrir mat og bensín í hlutfalli við laun. Og ræstistúlka getur ekki keypt meira í Bónus fyrir 6.700 kr. en við hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar. Sem sagt, hæstv. ráðherra: Hvað er til ráða og hvers er að vænta frá ríkisstjórninni?