149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

kjaramál láglaunastétta.

[13:36]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þarna var allnokkrum spurningum velt upp. Það er erfitt að svara hvað eigi að gera þegar hv. þingmaður frábiður sér síðan að fjallað sé sérstaklega um tillögur ríkisstjórnarinnar. Ég man ekki nákvæmt orðalag en það er kunnuglegt stef að fólk borði ekki meðaltölin og excel-skjölin en fólk borðar ekki heldur óstöðugleika og fólk borðar ekki verðbólgu eða vaxtahækkanir. Ef ég er spurð hvort mér finnist laun hinna lægst launuðu fullkomlega réttlátt svara ég: Að sjálfsögðu ekki. Það er ekki til það samfélag í þessum heimi þar sem lægst launuðu lifa við mjög öflugt og mikið réttlæti. Þá þarf að horfa á á hvaða vegferð við höfum verið þegar við skoðum — og það má kalla það meðaltöl sem enginn étur en ég kýs að kalla þær staðreyndir og við hljótum að tala út frá staðreyndum — uppsafnaða raunávöxtun ráðstöfunartekna er það mynd sem sýnir ákveðið réttlæti vegna þess að tekjulægstu tíundirnar hafa fengið meira hlutfallslega, (Gripið fram í.) jú, það er hlutfallslega, en þær tekjuhæstu. Þegar horft er á þá mynd hugsa ég að sú þróun sé á vegferð einhvers réttlætis. Mig langar að vera rosalega almennileg og geta sagt að mér finnist allir eiga skilið að fá hærri laun. Hverri og einni manneskju finnst hún þess verðug og þannig á okkur að líða. Þess vegna er alltaf erfitt að tala um þá hópa sem eru með lægstu launin. Þess vegna er tillögum ríkisstjórnarinnar sérstaklega beint að þeim. En það þarf einfaldlega að finna út svigrúmið til launahækkana og svo er það þessara aðila að finna út úr því hvernig því er skipt. (Forseti hringir.) Ég get ekki gerst dómari í því og þess vegna hef ég líka sagt að það er óheppilegt þegar maður getur ekki einu sinni lagt mat á raunverulegar kröfur af því að deiluaðilar rífast líka um hverjar þær eru.