149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

framlög til SÁÁ.

[13:45]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svarið. Ég ætla að vísa til þess sem leikkonan Kristín Þóra Haraldsdóttir sagði kvöldið sem hún hlaut Edduverðlaunin fyrir leik sinn í myndinni Lof mér að falla þar sem hún hélt tilfinningaþrungna ræðu og hvatti yfirvöld til að gera eitthvað í málefnum fíkniefnaneytenda strax.

Ég vil leyfa mér að ætla að þær lögskýringar og þau markmið sem við vorum með hér fyrir jól, þegar við samþykktum 150 millj. kr. aukaframlag til SÁÁ, hafi fyrst og síðast verið til að koma í veg fyrir þann gríðarlega vanda sem skapast hefur úti í samfélaginu vegna biðlista eftir því að komast í bráðameðferð á Sjúkrahúsið Vog.

Ég vil meina að göngudeild taki hins vegar við einstaklingunum þegar þeir koma úr þeirri meðferð og þeirri hjálp.

Í fyrsta lagi langar mig að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hún geti ekki verið sammála mér um að það sé ólíðandi að hafa þessa biðlista inn á Vog. Við höfum í rauninni öll, í samráði við samfélagið, verið að kalla eftir því að eyða þeim biðlista.

Í öðru lagi: Eru til einhverjir sérfræðingar til að taka við þessu unga fólki (Forseti hringir.) inni á Landspítala – háskólasjúkrahúsi sem hæstv. heilbrigðisráðherra verður svo tíðrætt um?