149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir spurninguna og hún er vissulega áhugaverð. Nú ætla ég að leyfa mér að hugsa aðeins upphátt. Þegar mál er sett í þessa tímapressu og sú mikla áhersla lögð á tímann á sama tíma og tímamörkin eru gjörsamlega útilokuð þá læðist að manni sá grunur að menn hafi ekki áhuga á að lenda í miklum efnislegum samtölum, málefnalegum viðræðum um málið. Það er í rauninni ekkert annað sem getur skýrt það að stjórnarflokkarnir sem hafa alla stjórn á þessu máli, eins og hv. þingmaður kom inn á, alla stjórn, setji málið í þá ótrúlegu stöðu að umræður hefjist 15.03, markaðir loki 15.30 eða 16, við getum flett því upp hérna á milli svara, og það eigi að klára heila umræðu með öllu sem því fylgir, vísa máli til nefndar, slíta fundi, setja málið aftur inn, ræða það með atkvæðaskýringum og klára og fjárfestarnir eiga að geta tekið sprettinn og keypt ný skuldabréf.

Menn eru með þessu bara að forðast umræðuna. Það getur ekkert annað verið. Menn höfðu það í hendi sér að hafa getað gert þetta með miklu rýmri tíma og þá er engin önnur skýring sem kemur mér til hugar en að menn hafi ekki viljað finna sig í þeirri stöðu að þurfa að rökræða efnisatriði málsins. Það má segja að það skíni kannski dálítið í gegn með því að hér er framsögumaður málsins, hv. þm. Óli Björn Kárason, ekki viðstaddur og enginn annar þingmaður stjórnarflokkanna, (Forseti hringir.) ekki einn, þannig að það er mín besta ágiskun.