149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:40]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni kærlega fyrir. Þetta er nefnilega alveg ótrúlegur viðsnúningur sem verður um mitt ár 2016, þegar útboðið var upp á 250 milljarða að þá var verið að tala um 190 kr. Síðan lækkar þetta niður í 165, síðan niður í 130. Nú væri fróðlegt að vita á hvað á að setja þessar aflandskrónur núna, hversu mikil lækkun hefur orðið og hvar er staðfestan? Við erum að tala um að 83 milljarðar séu undir. Við tölum um 200 millj. kr. evrur. Eitthvað er nú hægt að gera fyrir það.

Ég ítreka enn og aftur stöðu öryrkja. Ég ítreka enn og aftur stöðu aldraðra. Ég talaði um nýtt þjóðarsjúkrahús á nýjum stað sem og innlegg í kjarabaráttu og þá ekki hvað síst fyrir þá sem ekki hafa einhverja samninga. Það vill stundum gleymast í þessum sal að aldraðir og öryrkjar hafa ekki neina kjarasamninga til að hlaupa upp á og þar af leiðandi hafa þeir kannski ekki eins sterka rödd eða jafn mikla pressu og aðrir sem hafa aðkomu að einhvers konar fagfélögum og stéttum.