149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[01:12]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Til að svara spurningunni þá rekur mig ekki minni til þess að upp hafi komið stór mál sem stjórnin á þeim tíma tók ekki þátt í. Það var náttúrlega eitthvað um málþóf og annað slíkt hjá stjórnarandstöðunni í minni málum, eins og gengur. Ég man t.d. eftir máli sem var mikið rætt og kallað skuldaleiðréttingarmálið. Þar tók ríkisstjórn þess tíma mikinn þátt í því til að útskýra þær forsendur sem málið var byggt á en mikið var snúið út úr því af þáverandi stjórnarandstöðu og erfitt við að eiga. Einhvern veginn fannst manni það mjög ósanngjarnt því að málið var mjög stórt og þáverandi ríkisstjórn tók mikinn þátt í umræðunni til að útskýra það fyrir stjórnarandstöðunni sem var frekar treg til að skilja málið. Ég er alveg viss um að ef við fengjum stjórnarliða hingað og þá sem hafa mælt fyrir þessu máli til að útskýra vissar spurningar sem við höfum velt upp í dag og í kvöld myndi það varpa ljósi á það sem við erum að kasta á milli okkar.

En, nei, ég man ekki eftir stærra máli.