Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:16]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Mig langar rosalega mikið að skilja. Nú er ég löglærð. Mig langar að ganga lengra en hv. þm. Halldóra Mogensen. Mig langar að kalla þetta lögfræðilega loftfimleika. (HallM: Já. Þetta er það.) Það er nefnilega þannig að það ákvæði sem hefur verið vísað til í upplýsingalögum nefnir að það þurfi ekki að veita upplýsingar eða gögn sem geta varðað réttarágreining sem á að leggja fyrir eitthvað annað. Ég veit ekki til þess að það standi til að leggja þessi skjöl, sem forsætisnefnd á einhvers staðar, í einhverjum réttarágreiningi eitthvert annað. Þannig að mér þykir það fremur hæpið.

Ég óska eftir því sömuleiðis að forseti upplýsi um þau fordæmi sem hann vísaði til hérna rétt áðan varðandi það að beiðnum á borð við þá sem hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson lagði fram hérna rétt áðan sé vísað frá þar sem það varði ekki stjórnsýslu þingsins. Ég get ekki ímyndað mér hvernig það getur ekki varðað stjórnsýslu þingsins ef við erum að tala um afhendingu gagna eða ekki afhendingu gagna. Það varðar ekkert úttekt ríkisendurskoðanda, það varðar stjórnsýslu þingsins. Þetta er bara skjal sem við erum með; ætlum við að afhenda það eða ekki? (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Þannig að mig langar bara til þess að óska eftir því að fá upplýsingar um þau fordæmi sem forseti var að vísa til hér rétt áðan.