132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

63. mál
[16:30]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi rök þá bendi ég hv. þingmanni á nefndarálit minni hluta við skattbreytingafrumvarp ríkisstjórnarinnar eins og það var flutt á sínum tíma, en ég átti þátt í að setja fram þau rök sem fram komu í nefndaráliti minni hluta um að í raun væri ríkisstjórnin að hækka skatta á stærstan hóp skattborgara í landinu en ekki lækka.

Frú forseti. Að hlusta á aðila úti í bæ. Ef aðilar úti í bæ, hvort sem þeir eru Kastljós Ríkisútvarpsins, Landssamband eldri borgara, ASÍ, prófessor í Háskólanum eða einhverjir aðrir, geta sýnt mér fram á með rökum að ríkisstjórnin sé að hækka skatta, útskýrt fyrir mér á hvaða hátt þeir reikna það út og hvað þeir leggja til grundvallar, þá hlusta ég á þá. En það er háttur núverandi ríkisstjórnar að hlusta ekki á nokkurn mann, sérstaklega ekki þá sem standa í röðinni og horfa á skrúðgönguna og segja: „Mamma, hann er ekki í neinum fötum.“