149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:43]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég hef reynt að fylgjast með þessari umræðu alveg frá því að hún hófst upp úr kl. 15 í gær og fram til kl. 5.30 í morgun eins vel og mér er unnt. Það hefur stundum verið dálítið erfitt að halda þræði, það skal viðurkennt, en látum það liggja á milli hluta. Ég heyri hins vegar að hv. þingmenn úr Miðflokki sem hafa tekið hér til máls hafa kallað eftir frekari upplýsingum, telja að upplýsingar liggi ekki fyrir nægilega skýrar o.s.frv. Það kemur mér pínulítið á óvart, skal játað, en eins og búið er að boða mun efnahags- og viðskiptanefnd koma saman að lokinni þessari umræðu og á fund nefndarinnar koma sérfræðingar Seðlabankans. Þar gefst þá tækifæri, ef menn gefa sér tíma til að mæta á nefndarfund, til að óska eftir frekari skýringum og upplýsingum sem menn telja að skorti á í þessu máli.

Mér finnst líka rétt að halda því til haga vegna þess að það er einhver ruglingur hér stundum að þetta frumvarp var lagt fram á þingi 14. desember sl. af hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Hann óskaði eftir því að fá að mæla fyrir frumvarpinu þannig að unnt væri að senda það til efnahags- og viðskiptanefndar sem í framhaldi myndi senda málið til umsagnar og taka frumvarpið síðan til efnislegrar meðferðar að loknu jólaleyfi. Þetta tókst ekki af ástæðum sem hv. þingmönnum sem hér hafa mest talað er fullljóst.

22. janúar mælti fjármálaráðherra fyrir frumvarpinu hér í þingsal. Enginn þingmaður sá ástæðu til þess að fara í andsvör við hæstv. ráðherra, óska eftir upplýsingum, setja fram beiðni um frekari upplýsingar eða fara í ræðu. Sama dag tóku hv. þingmenn Miðflokksins hins vegar þátt í öðrum umræðum hér í þingsal, m.a. sérstökum umræðum um vanda Landspítalans, sem þeir áttu frumkvæðið að, og tóku einnig til máls í óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra sama dag. Þeir sáu enga ástæðu til þess að taka þátt í umræðu um frumvarpið sem við ræðum hér eða óska eftir frekari upplýsingum sem þeir töldu að gæti skort miðað við það sem fram kom í greinargerð. Frumvarpið hafði þá legið fyrir hjá þingmönnum í rúman mánuð þannig að nægur var tíminn til að kynna sér efnisatriði málsins.

Þetta er auðvitað bara ákvörðun sem menn taka. Þingmenn Miðflokksins voru ekkert einu þingmennirnir sem tóku ekki til máls. Það tók enginn þingmaður til máls í 1. umr. um þetta mál.

24. janúar tók efnahags- og viðskiptanefnd málið, sendi það til umsagnar og þar var ákveðið að sá er hér stendur yrði framsögumaður. Enginn nefndarmanna kom með sérstakar óskir um að það ætti að senda einhverjum ákveðnum aðilum málið til umsagnar, lögðu ekki fram neinar óskir um að það ætti að fjalla um málið með einhverjum fyrirframákveðnum hætti.

31. janúar koma sérfræðingar fjármálaráðuneytisins á fund efnahags- og viðskiptanefndar. Þar fara þeir yfir frumvarpið og svara öllum spurningum nefndarmanna og veita þær upplýsingar sem beðið er um. Fulltrúi Miðflokksins í efnahags- og viðskiptanefnd var ekki á þeim fundi og Miðflokkurinn sendi ekki varamann í hans stað, þannig að það liggi fyrir.

19. febrúar komu sérfræðingar Seðlabankans á fund nefndarinnar og svöruðu öllum spurningum og veittu allar þær upplýsingar sem nefndarmenn töldu sér nauðsynlegar til að taka efnislega afstöðu til málsins. Það skal játað að fulltrúi Miðflokksins í efnahags- og viðskiptanefnd var ekki á þeim fundi. Miðflokkurinn taldi af einhverjum ástæðum ekki ástæðu til eða hafði ekki tök á að senda varamann í staðinn.

Sama dag, rétt eftir kl. 18, fá allir nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd send drög að nefndaráliti þar sem skýrt kemur fram að ætlunin sé að afgreiða nefndarálitið kl. 8.45 tveimur dögum síðar, þ.e. á fimmtudegi 21. febrúar, sem er í rauninni sami dagur og efnahags- og viðskiptanefnd var líka með opinn fund með fulltrúum Seðlabankans vegna skýrslu peningastefnunefndar til Alþingis lögum samkvæmt. Sem sagt: Frá kl. 18 þann 19. febrúar til kl. 8.45 hinn 21. febrúar höfðu allir nefndarmenn drög að nefndarálitinu, vissu að það stæði til á sérstökum fundi fyrir hinn opna fund að taka nefndarálitið til afgreiðslu, taka upp ef væru ábendingar eða beiðnir um breytingar o.s.frv. Aldrei á þessum tíma kom nein beiðni frá neinum nefndarmanni um að gera einhverjar breytingar. Það voru allir sáttir, eða þannig mátti skilja það. Það kom engin beiðni um að skýra eitthvað sem væri óljóst og þess vegna þyrfti að afla frekari upplýsinga. Svona var staðið að verki. Það er rétt að halda þessu til haga.

Allir nefndarmenn sem voru mættir kl. 8.45 fimmtudaginn 21. febrúar studdu nefndarálitið. Það skal tekið fram að fulltrúi Miðflokksins í efnahags- og viðskiptanefnd sat ekki þann fund og varamaður Miðflokksins var heldur ekki á þeim fundi. En 15 mínútum síðar hófst hins vegar opinn fundur efnahags- og viðskiptanefndar með fulltrúum Seðlabankans um skýrslu peningastefnunefndar til Alþingis. Þar sat fulltrúi Miðflokksins.

Þetta er bara til að halda einhverju til haga og einnig að menn velti því fyrir sér, fyrst að færi gefst hér á eftir að lokinni þessari umræðu, að gera enn eina tilraun til að afla þeirra upplýsinga sem þeir biðja um eða telja að séu nauðsynlegar og liggi ekki fyrir og ég átta mig ekki á hverjar eru. Það gefst kostur á því um leið og þessari umræðu lýkur vegna þess að mér sýnist hún ekki skila mjög miklu, a.m.k. ekki sem af er.

Aðeins er rétt að segja að eigendur þeirra aflandskróna sem enn eru fastir í aflandskrónumenginu svokallaða eru annars vegar aðilar sem hafa átt krónur frá því áður en fjármagnshöftin voru sett og hins vegar aðilar sem keyptu kröfur og krónur og aðrar fjármálaafurðir eftir innleiðingu haftanna. Ég vona að öllum sé þetta ljóst. Megnið af þeim skuldabréfum sem koma á gjalddaga 26. febrúar er í eigu aðila sem komu inn á markaðinn löngu fyrir fjármagnshöftin. Ekki er um að ræða vogunarsjóði heldur hefðbundna skuldabréfasjóði sem samkvæmt eigin innri reglum og fjárfestingarstefnu er óheimilt að eiga reiðufé nema í skamman tíma. Þeim ber að eiga skuldabréf og einungis skuldabréf, en hafa skamman tíma til að endurfjárfesta vegna vaxtaafborgana og endurgreiðslna í nýjum skuldabréfum o.s.frv. Verði frekari töf á afgreiðslu frumvarpsins er líklegt að viðkomandi aðilar verði knúnir til að leita leiða til að selja krónustöður sínar á aflandsmarkaði utan lögsögu íslenskra stjórnvalda til annars konar fjárfesta með skammtímasjónarmið í huga sem myndu leita útgöngu í gegnum gjaldeyrismarkað við fyrsta tækifæri.

Ég vona að hv. þingmenn geri sér grein fyrir þessu. Það væri miður ef þetta gerðist því að hér er um að ræða tegund fjárfesta sem er eftirsóknarvert að fjárfesti í innlendum skuldabréfum. Þetta eru fjárfestar sem horfa til lengri tíma og þeir hafa sýnt að þeir eru ekki líklegir til að kaupa eða selja krónueignir eftir því sem vindar blása á markaði með tilheyrandi þrýstingi á fjármagnsjöfnuð og gengi íslensku krónunnar.

Það hefur verið unnið markvisst að því á undanförnum árum að breikka fjárfestingagrunninn í íslenskum ríkisskuldabréfum. Innlendur markaður er lítill. Fjárfestingagrunnurinn er einsleitur, fyrst og fremst lífeyrissjóðir, verðbréfasjóðir og innlendir bankar. Í dag eru aðeins 10% ríkisskuldabréfa í krónum í eigu alþjóðlegra fjárfesta. Samsvarandi hlutfall á öðrum Norðurlöndum, sem eru með sjálfstæða mynt, er 35–50%. Fjölbreytni í fjárfestingahópi eykur stöðugleika og bætir aðgang ríkissjóðs að fjármagni til lengri tíma og stuðlar að lægri fjármögnunarkostnaði. Breiður fjárfestingahópur er því einn af hornsteinum í lánastýringu þróaðra þjóða. Og því miður er það þannig að hér er unnið gegn því að svo megi verða á Íslandi. Ég átti satt að segja von á ýmsu en ég átti ekki von á þessu. Ég átti ekki von á því að þingmenn Miðflokksins gengju fram með þeim hætti að þeir vildu ekki stuðla að því (Forseti hringir.) að hér yrði heilbrigt umhverfi sem gerir ríkinu kleift, ríkissjóði (Forseti hringir.) fyrir okkar hönd, að stunda lánastýringu eins og viðgengst í öðrum (Forseti hringir.) l öndum sem við berum okkur saman við.