149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðisræðu. Mig langar til að spyrja hvort hann telji að eftir þær umræður sem hér hafa farið fram séum við einhverju nær um töluna í þessu útboði, þ.e. í tilboðinu sem menn eru að ganga í burtu með nú, 84 milljarða, það sem er í frumvarpinu sem við ræðum hér. Hefur það skýrst á einhvern hátt hvers vegna þessi tala er valin en ekki leitast við að hafa hana hærri eins og hefur verið bent hér á og gæti munað íslenska þjóðarbúið um 13–23 milljarða kr.? Ég spyr að þessu í fyrsta lagi.

Í öðru lagi: Telur hv. þingmaður að það sé í sjálfu sér rétt nálgun sem kom fram í annars ágætri ræðu hv. þm. Óla Björns Kárasonar, að stilla fyrirtækjum upp sem góðum og vondum eins og mér fannst hv. þingmaður gera í sinni ræðu? Sjálfur hef ég talið að fjármálafyrirtæki séu yfirleitt ekki neinir skátaklúbbar en að sjálfsögðu ber ekki að líta þau neinu hornauga heldur bara með þá staðreynd í huga að þarna er um að ræða fyrirtæki sem eru gerð út á það, að sjálfsögðu, að hámarka sinn hagnað af þeim viðskiptum sem þau taka þátt í. Því er ekki að búast við því að þau séu tilbúin til einhverra lipurra samninga, bara svona upp á sitt eindæmi.